Fara í efni

Aron Freyr fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna annað kvöld

Aron Freyr Ívarsson syngur fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna í beinni útsendingu í Ríkis…
Aron Freyr Ívarsson syngur fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu annað kvöld, laugardagskvöld. Keppnin verður haldin á Selfossi.

Aron Freyr Ívarsson verður fulltrúi Verkmenntaskólans á Akureyri í Söngkeppni framhaldsskólanna 2024 sem verður haldin í Iðu, íþróttahúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, annað kvöld, laugardagskvöldið 6. apríl. Bein útsending verður frá keppninni í Ríkissjónvarpinu og hefst hún kl. 19:45.

Aron Freyr sigraði Sturtuhausinn – söngkeppni VMA í nóvember á síðasta ári og tryggði sér þar með þátttökurétt í Söngkeppni framhaldsskólanna. Hann flutti þar lagið Brother can you spare a dime, sem George Michael gerði ódauðlegt, og það mun hann einnig flytja á Selfossi annað kvöld. Raunar flytur Aron lagið á íslensku því aðstandendur Söngkeppni framhaldsskólanna hafa breytt reglum hennar í þá veru að öll lögin í keppninni, hvort sem þau eru íslensk eða útlend, skulu flutt á íslensku. Í upphafi þessarar keppni voru reglurnar á þessa lund og nú er sem sagt horfið til hins upprunalega og íslenskan er tungumálið í keppninni, eins og vera ber.

Aron Freyr sagði að úr nokkuð vöndu hafi verið að ráða þegar í ljós kom að texti Brother can you spare a dime þyrfti að vera á íslensku. En með góðri hjálp föður hans, Ívars Helgasonar söngvara á Akureyri, hafi tekist að grafa upp íslenskan texta við lagið í gamalli söngbók. Í íslenskri þýðingu heitir lagið Lánleysi. Lagið flytur Aron Freyr við undirleik hljómsveitar keppninnar. Hann æfði með henni í Reykjavík í gær og aftur verður æft í dag. Lokarennslið fyrir keppnina annað kvöld verður síðan á Selfossi á morgun.

Aron Freyr segist vera spenntur fyrir keppninni og hún leggist vel í sig. Vissulega sé það töluvert öðruvísi að flytja lagið á íslensku en ensku en hann hafi æft sig vel að undanförnu og teli sig ágætlega undirbúinn.

Aron sýndi á eftirminnilegan hátt hvað í honum býr á Sturtuhausnum í nóvember á síðasta ári og þá heillaði hann alla viðstadda á árshátíð VMA í byrjun mars þegar hann kom fram og söng án undirleiks. Hann stundar nám í húsasmíði í VMA og auk þess að syngja fyrir sjálfan sig heima í sturtu er hann söngvari í þungarokkshljómsveitinni Sót á Akureyri.