Fara í efni

Arndís Eva Erlingsdóttir sigraði Sturtuhausinn 2019

Arndís Eva Erlingsdóttir.
Arndís Eva Erlingsdóttir.

Arndís Eva Erlingsdóttir söng til sigurs í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA í gærkvöld. Hún söng lagið Call out my Name með miklum glæsibrag. Í öðru sæti var Særún Elma Jakobsdóttir og í því þriðja var Álfheiður Fanney Ásmundsdóttir. Áhorfendaverðlaunin hlaut Aldís Inga Sigmundsdóttir.

Arndís Eva tók þátt í Sturtuhausnum í fyrra og varð þá í öðru sæti keppninnar. Hún söng fyrir hönd VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna á Akranesi sl. vor. Hún stundar nám á listnámsbraut VMA og hefur þar fyrir utan einbeitt sér að leiklistinni, segist hafa verið í leiklist alveg síðan hún var átta ára gömul. Hún hefur látið til sín taka í Leikfélagi VMA, í uppfærslu þess á Ávaxtakörfunni í fyrra fór hún með hlutverk Geddu gulrótar. Og hún verður aftur á sviðinu í Hofi eftir tæpan hálfan mánuð þegar Leikfélag VMA frumsýnir söngleikinn Bugsy Malone. Arndís Eva segist ekki hafa lært neitt í söng en neitar því ekki að sigurinn í keppninni í gærkvöld, sem var að flestra mati óvenju sterk, sé hvatning til þess að leggja meiri áherslu á sönginn.

Stefán Jakobsson tók í upphafi Sturtuhaussins lagið sem hann söng í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2003 fyrir hönd VMA – og síðan hefur hann ekki litið til baka í tónlistinni. Stefán var auk þess í dómnefnd kvöldsins ásamt Ernu Gunnarsdóttur og Fanneyju Kristjáns Snjólaugardóttur. Stefán tók annað lag strax eftir hlé áður en síðustu átta keppendurnir fóru á svið.

Jóhann Axel Ingólfsson og Benedikt Gröndal voru kynnar kvöldsins. Hljómsveitin var skipuð þeim Jóni Tuma-Hrannari Pálmasyni á bassa, Hafsteini Davíðssyni á trommur, Jóhannesi Stefánssyni á gítar og Styrmi Þey Traustasyni á hljómborð. 

Sextán lög voru í Sturtuhausnum að þessu sinni:

1. Álfheiður Fanney Ásmundsdóttir - My funny Valentine - Lorenz Hart 
2. Sigríður Rós Atladóttir - You don‘t know - Katelyn Tarvel 
3. Aldís Inga Sigmundsdóttir - Ást - Ragnheiður Gröndal 
4. Arndís Eva Erlingsdóttir - Call out my name - The Weekend 
5. Brynja Ploy - Dont you remember - Adele 
6. Anna Birta Þórðardóttir - Homesick - Dua Lipa 
7. Sigríður Björk Hafstað - Holding on to you - Twenty one Pilots 
8. Magnea Lind - Make you feel my love - Adele
9. Örn Smári Jónsson - Unsteady - X Ambassadors 
10. Embla Sól Pálsdóttir - Titanium ft. Sia - David Guetta 
11. Særún Elma Jakobsdóttir - She used to be mine - Sara Bareilles 
12. Jónína Freyja Jónsdóttir - Love someone - Lukas Graham 
13. Helgi Freyr Gunnarsson og Þorkell Björn Ingvason - Hótel jörð 
14. María Björk Jónsdóttir - Vikivaki (vorið kemur) 
15. Svana Rún - Black Roses - Clare Bowen 
16. Ragnheiður Diljá - Surprise yourself - Jack Garratt

Stuttmyndafélagið Æsir í VMA tók söngkeppnina upp og verður hún sett á Youtube einhvern næstu daga undir nafninu Sturtuhausinn 2019. Um upptöku sáu: Hákon Logi Árnason, Sigurður Bogi Ólafsson og Dagur Þórarinsson.

Áður en úrslit í gærkvöld voru tilkynnt var upplýst hvaða skemmtiatriði verða á árshátíð VMA 15. mars nk. í íþróttahúsi Síðuskóla. Þar láta ljós sín skína Magni Ásgeirsson og Salka Sól Eyfeld og hljómsveit, Dj Sveinbjörn,  Sprite Zero Klan og Club Dub. Veislustjórar verða tilkynntir síðar.