Fara í efni

Arna Valsdóttir tilnefnd til Menningarverðlauna DV

Arna G. Valsdóttir.
Arna G. Valsdóttir.

Arna Valsdóttir, listakona og kennari við listnámsbraut VMA,  hefur verið tilnefnd til menningarverðlauna DV í myndlist fyrir listsköpun sína. Tilnefningarnar voru kynntar í dag.

Í umsögn dómnefndar vegna tilnefningarinnar segir:
„Arna Valsdóttir hefur lengi fengist við vídeólist og þróað sérstaka og persónulega nálgun, sína sérstöku rödd sem styrkist með hverju ári. Hún hefur oft sýnt á óhefðbundnum stöðum, t.d. í vitum og heimahúsum, en í fyrra efndi Listasafnið á Akureyri til sýningar þar sem dregin voru saman eldri verk hennar ásamt nýjum. Löngu tímabært er að fleiri fái tækifæri til að sjá verk þessarar frjóu listakonu og vonandi að svipuð sýning verði fljótlega sett upp á höfuðborgarsvæðinu líka.“

Vatnberinn - Fjall+Kona í Ásmundarsal
Þess má geta að Arna Valsdóttir tekur nú þátt í sýningu í Ásmundarsafni í Reykjavík þar sem þess er minnst að 100 ár  eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Hin kunna höggmynd Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn (1937), er þungamiðja og leiðarstef sýningarinnar.

Á sýningunni í Ásmundarsal, eru ásamt Vatnsberanum önnur valin verk Ásmundar. Sýningarstjóri er Harpa Björnsdóttir og fékk hún listaverk nokkurra nútímalistamanna til að eiga í samtali við verk Ásmundar. Auk Örnu eiga verk á sýningunni Daníel Magnússon, Kristín Gunnlaugsdóttir, Níels Hafstein, Ólöf Nordal, Ragnhildur Stefánsdóttir  og Sigurður Guðmundsson.

Aðrar tilnefningar til menningarverðlauna DV í myndlist eru: Wind and Weather og Better Weather - gluggagallerí við Hverfisgötu og Laugaveg, Ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn - sýning í Ásmundarsafni, Vasulka-stofa á Listasafni Íslands - miðstöð fyrir raf- og stafræna list á Íslandi og listamaðurinn Hreinn Friðfinnsson, einn af frumkvöðlum nýlistar og hugmyndalistar á Íslandi.

Hér eru nánari upplýsingar um tilnefningar til menningarverðlauna DV.