Fara í efni

Arna Vals og Hekla Björt í Geimdósinni

Uppákoman í Geimdósinni hefst kl. 20 annað kvöld.
Uppákoman í Geimdósinni hefst kl. 20 annað kvöld.

Arna Valsdóttir, kennari á listnámsbraut VMA, og Hekla Björt Helgadóttir tefla saman vídeóverki og ljóði í Geimdósinni í Kaupvangsstræti 12 (Listasafnshúsið/ gengið inn úr portinu fyrir ofan) annað kvöld, laugardagskvöld, kl. 20.

Vídóverk Örnu nefnir hún „Agnes“ og er það stutt myndskeið, tekið í Vatnsdalnum á hráslagalegum degi vorið 2014 við aftökustað Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar, en þau þau voru þar líflátin 12. janúar 1830 fyrir að hafa myrt Nathan Ketilsson og Pétur Jónsson. Þetta var síðasta aftakan á Íslandi.

Arna hefur verið ötul í listinni á þessu ári en skemmst er að minnast einkasýningar hennar „Staðreynd-Local fact“ í Listasafninu á Akureyri, sem var opnuð í ágúst sl., þar sem hún sýndi sex vídeó/söng-innsetningar.

Hekla Björt hefur starfrækt gallerí Geimdós á vinnustofu sinni í Kaupvangsstræti, síðan í desember 2013. Þar hefur hún unnið myndlist og ljóð, auk þess að bjóða listafólki að sýna þar verk sín við ljóð eftir hana. 

Fyrsta opnun Geimdósarinnar var 17. desember 2013 og verður opnunin annað kvöld sú síðasta og sautjánda í röðinni. Að því tilefni, eru allir hjartanlega velkomnir í Geimdósina í síðasta sinn. Arna og Hekla munu meðal annars bjóða upp á ljóðasúpu og brauð og einhvern ljúfan vökva í glasi. 

Ljóð Heklu Bjartar, „Kæra Ljóðsdóttir“ er eftirfarandi

Ekki láta þér bregða, þeir koma þessir dagar…
Dagarnir sem byrja á síðdegi og enda á kaldri súpu
spegilmyndin hörfar, fölnuð ást safnar ryki
og þú starir fram hjá sjónvarpinu í úlpu

Það snjóar inn um gluggann og hjartað er úr ösku
og þú vilt eyða þeim í rúminu,
með einvherjum að yrkja um… 
og ekki um einhvern sem drap í glóð í hjartanu, 
heldur einhvern sem klæðir sig brosandi í úlpu
hitar súpuna og situr með þér.

Ég man daginn sem ég uppgötvaði kveðskap og kvenhatur Charles 
Bukowskis. Ég las ekkert annað, hálfheilluð, hálfhelluð
og frekar hneyksluð.
Og ég undraði mig á afköstum mannsins,
Hann teygaði minnst sex lítra af bjór á dag!
og ég spurði mig hvort ég kæmist upp með slíkt hið sama
að drekka og skrifa og skrifa um að drekka í bræði
… svo komu dagarnir sem ég lét á það reyna…
en ræðum þá sem minnst…
þeir enduðu í kulnuðu flóði
við Ginnungagapið sjálft.

En svo komu líka dagar
og ég lofa þér… þeir koma
þegar allt hið ofangreinda
fellur í skugga hins fullkomna orðasambands
og þér finnst þú hafa sigrað bikið og heiminn og allan stokkinn
og gefur skuggum meistaranna langt nef