Fara í efni

Appmentor hlýtur ESB-nýsköpunarverðlaun

Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir og Harpa Birgisdóttir
Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir og Harpa Birgisdóttir

Nýlega var tilkynnt að Erasmus+ Evrópuverkefni sem Harpa Birgisdóttir og Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir tóku þátt í fyrir hönd Verkmenntaskólans á Akureyri hljóti verðlaun Evrópusambandsins um nýsköpun í kennslu – 2021 Europian Innovative Teaching Award - og verða þau afhent í október nk. Unnið var að verkefninu á árunum 2016-2018 og voru þátttakendur í því, auk Íslands, frá Finnlandi, Bretlandi, Hollandi, Noregi og Spáni.

Verkefnið nefnist Appmentor og gekk í stórum dráttum út á að skoða fjölþætta möguleika í notkun samfélagsmiðla í vinnustaðanámi auk þess að aðstoða og þjálfa starfsmentora á vinnustöðum. „Þetta verkefni kom til í framhaldi af öðru evrópsku verkefni sem ég tók þátt í með fólki af sama þjóðerni en síðan bættust Spánverjar í hóp þeirra sem tóku þátt í verkefninu. Harpa kennari í hársnyrtiiðn kom inn í verkefnið vegna þeirra víðtæku tenginga sem námsbrautin í hársnyrtiiðn hér í VMA hefur við atvinnulífið með vinnustaðanáminu – m.a. með svokallaðri Hringekju, sem felur það í sér að nemendur eru í stigvaxandi vinnustaðanámi eftir því sem á námstímann líður. Þegar nemendur eru að vinna út á vinnustöðum er mikilvægt að miðlun upplýsinga á milli allra hlutaðeigandi sé virk og góð. Hér á Akureyri áttum við Harpa gott samstarf við stéttarfélögin og fjölmörg fyrirtæki sem tengjast á einn eða annan hátt verknámsbrautum hér í VMA. Við notuðum mismunandi forrit í þessu sambandi og það var ákveðinn kostur að ég nota Apple en Harpa Samsung og því var alltaf önnur hvor okkar sem þekkti viðmót forritanna og gat aðstoðað bæði nemendur og fyrirtækin. Við fórum í heimsóknir í fjölda fyrirtækja og fengum innsýn í hvaða samskiptaforrit þau nota. Í ljós kom að notkun samskiptaforrita í fyrirtækjum er töluvert starfsgreinabundin,“ segir Hrafnhildur S. Sigurgeirsdóttir en meðal forrita sem voru til skoðunar í Appmentor eru Facebook, Workplace, Instagram, Messenger, WhatsApp, Trello og Wunderlist.

Hrafnhildur hefur langa reynslu af þátttöku í Evrópuverkefnum, hún hefur tekið þátt í þeim síðan 2014. Hún og Harpa eru nú þegar komnar á fullt í framhaldsverkefni, VET@Work, og taka ólík fyrirtæki í þátttökulöndunum þátt í verkefninu. Með Hrafnhildi og Hörpu tekur Hársnyrtistofan Medulla á Akureyri þátt í verkefninu. Hjúkrunarheimili er fulltrúi Finnlands í verkefninu, matvælafyrirtæki í Hollandi, í Bretlandi koma að verkefninu fyrirtæki í vélstjórn og kæligreinum og frá Frakklandi taka þátt fyrirtæki í landbúnaði og skrúðgarðarækt. Núna á haustdögum stefna Hrafnhildur og Harpa út fyrir landsteinana til fundar við samstarfsfólk sitt í VET@Work.

Hrafnhildur og Harpa vilja koma á framfæri þakklæti til fjölmargra sem hafi greitt götu þeirra við Appmentor verkefnið.  „Við hefðum ekki getað þetta án leyfis skólameistara, samstarfs við fyrirtækin hér á svæðinu, stéttarfélögin og samstarfsfélaga okkar hér í skólanum,“ segir Hrafnhildur.