Fara í efni

Annríki hjá gömlu VMA-rokkurunum

Eyþór Ingi og Stefán Jakobsson. Mynd: Vísir.is
Eyþór Ingi og Stefán Jakobsson. Mynd: Vísir.is

Þeir Stefán Jakobsson og Eyþór Ingi Gunnlaugsson eiga margt sameiginlegt. Þeir eru báðir Norðlendingar, Stefán úr Mývatnssveit og Eyþór Ingi frá Dalvík. Báðir voru þeir nemendur í VMA á sínum tíma og unnu Söngkeppni VMA glæsilega, Stefán árið 2003 en Eyþór Ingi árið 2007. Að vonum voru þeir báðir fulltrúar VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna og þar sigraði Eyþór Ingi með eftirminnilegum hætti. Um tíma bjuggu þeir báðir á höfuðborgarsvæðinu en eru báðir fluttir í heimahagana á ný, Stefán með fjölskyldu sinni í Mývatnssveit og Eyþór Ingi með fjölskyldu sinni til Dalvíkur.

Þessir tveir söngvarar eru einfaldlega tveir af albestu rokksöngvurum Íslands í dag og eru gríðarlega eftirsóttir. Óhætt er að segja að Söngkeppni VMA og síðar Söngkeppni framhaldsskólanna hafi vakið athygli á þeirra miklu og ótvíræðu hæfileikum og komið þeim rækilega á kortið. Síðan hefur boltinn ekki hætt að rúlla, í rauninni hefur hraðinn á honum aukist ár frá ári.

Stefán er líklega þekktastur fyrir að vera söngvari í einni af bestu og vinsælustu rokkhljómsveit Íslands í dag, Dimmu. Einnig hefur Stefán komið víða við og tekið þátt í ótal tónlistaruppfærslum í Hörpu, Hofi á Akureyri og víðar. Það sama má segja um Eyþór Inga. Hann hefur heldur betur lagt lóð sín á vogarskálar tónlistar á Íslandi undanfarin ár og stimplað sig inn sem magnaður söngvari, m.a. verið fastur liðsmaður Todmobile og fleiri hljómsveitum og komið fram í ótal tónlistaruppfærslum. Eitt hefur þó Eyþór Ingi gert sem Stefán hefur ekki enn sem komið er gert, þ.e. að syngja í Júróvisjón.

„Desembermánuður hefur til þessa verið rólegur hjá mér í tónlistinni en annað er uppi á teningnum í ár. Ég tek í ár í fyrsta skipti þátt í jólabransanum og það er bara heilmikið að gera. Ég tók um síðustu helgi þátt í tónleikum Norðurljósa í Hofi á Akureyri og það var mjög skemmtilegt. Það hefðu kannski fáir búist við því fyrir nokkrum árum og heldur ekki ég sjálfur að ég myndi syngja jólatónlist en mér þótti mjög gaman að taka þátt í þessu. Þó svo að ég sé fyrst og fremst í rokkinu hef ég enga fordóma gagnvart annarskonar tónlist. Það er alltaf gaman að vinna með góðu fólki,“ segir rokkarinn Stefán Jakobsson. Hann nefnir einnig að núna í desember komi hann einnig m.a. fram á tónleikum með Stúlknakór Húsavíkur og þá komi hann víða fram ásamt félaga sínum í hinum ýmsu jólauppákomum. Og annað kvöld, 17. desember, kemur Stefán fram með hljómsveitinni Dimmu í Hlégarði í Mosfellsbæ. Fjöldi tónlistarmanna kemur fram og mun allur ágóði af tónleikunum renna í tómstundasjóð Rauða Krossins sem mun verja honum til styrktar börnum flóttamanna. Og þegar horft er til næsta árs segir Stefán að eitt og annað sé í pípunum með Dimmu og einnig í hinum ýmsu tónlistaruppfærslum. Stefán áætlar að tónlistin skapi 65-70% af hans tekjum en auk þess leiðsegir hann erlendum ferðamönnum á vegum fyrirtækisins Saga Travel á Akureyri.

Eyþór Ingi Gunnlaugsson segir það enga spurningu að sigur í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2007 hafi komið sér rækilega á kortið og síðan hafi hjólin smám saman farið að snúast. „Ég verð að viðurkenna að þegar ég vann Söngkeppni framhaldsskólanna grunaði mig ekki það sem væri handan við hornið. Í dag lifi ég alfarið á tónlistinni og það má segja að síðustu þrjú árin hafi ég verið bókaður meira og minna um hverja einustu helgi. Núna í desember hefur verið gríðarlega mikið að gera og mér sýnist ég vera bókaður alveg fram á Þorláksmessu. Ég verð í fríi á aðfangadag og jóladag en síðan taka við æfingar fyrir eina sýningu á Jesus Christ Superstar í Hörpu á milli jóla og nýárs. Þegar er svona mikið að gera er gott að vita af jólasteikinni heima á Dalvík,“ segir Eyþór Ingi, en hann flutti með fjölskyldu sinni úr Kópavogi norður á Dalvík í ágúst sl. „Það er í raun alveg sama hvar maður býr því ég er að vinna í tónlistinni út um allt land,“ segir Eyþór Ingi. Auk þess að koma fram og skapa tónlist gefur hann sér tíma einu sinni í viku til þess að miðla þekkingu sinni í söng til nokkurra nemenda í Tónlistarskólanum á Dalvík.
Eyþór Ingi segist vera þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri af öllum toga í tónlistinni. Þegar hann var í VMA hafi hann haft áhuga á að læra leiklist en ferillinn hafi hins vegar þróast í aðra átt. Hann hafi vissulega fengið líka tækifæri á leiksviðinu, t.d. í Þjóðleikhúsinu, hjá Leikfélagi Akureyrar og Hörpu, samanber uppfærsluna á Jesus Christ Superstar. Skemmtilegast finnst honum þó að skapa eitthvað sjálfur, semja tónlistina frá grunni og flytja hana. Dæmi um það er lagið Fallið regn sem hann samdi á VMA-árunum á flygil á heimavistinni. Lagið er hér í flutningi Eyþórs Inga og Atomskáldanna. Hann upplýsir að á nýju ári megi vænta plötu með tónlist sem hann samdi ásamt Matthíasi Stefánssyni fyrir breska stuttmynd (sem verður þó væntanlega um klukkutíma löng). Þetta er sem sagt breskt/íslenskt samstarfsverkefni.
Þegar náðist í Eyþór Inga var hann að undirbúa hljóðprufu fyrir tónleika með gospelkór í Lindakirkirkju, en daginn áður hafði hann sungið í uppfærslunni Jólagestir Björgvins. Næsta ár er þéttbókað hjá Eyþóri eins og þetta og síðustu ár. Hann segist oft hafa hugsað að nú hlyti sá dagur að koma að minna yrði að gera hjá sér í tónlistinni en það hafi ekki ennþá gerst.

Gömlu VMA-rokkararnir, Stefán og Eyþór Ingi, eru góðir félagar og þeir hafa nokkrum sinnum stillt saman sína strengi á sviðinu, m.a. í hinu þekkta lagi Led Zeppelin, Stairway to Heaven. Eyþór  Ingi segir þó sjaldgæft að þeir hafi tekið saman dúett. Er ekki tímabært að efna til sérstakra tónleika með þessa mögnuðu norðlensku rokksöngvara í öndvegi?