Fara í efni

Anna Kristjana valin í ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ

Anna Kristjana (krjúpandi) og aðrir fulltrúar.
Anna Kristjana (krjúpandi) og aðrir fulltrúar.

Anna Kristjana Helgadóttir, nemandi í grunndeild rafiðna og ritari stjórnar Þórdunu, var sl. sumar valin í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og sat hún fyrsta fund ráðsins sl. fimmtudag í Reykjavík. Þetta er í annað skiptið sem slíkt ungmennaráð er skipað hér á landi og starfar það í eitt ár.

Tólf fulltrúar eru í ungmennaráðinu, á aldrinum 13 til 18 ára, og koma þeir af öllu landinu. Ráðið mun funda sex sinnum á starfsárinu – auk fjarfunda - og það mun einnig eiga fund með ríkisstjórn Íslands. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðuð þjóðanna auk þess að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Þá er hlutverk ungmennaráðsins að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf við innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Anna Kristjana Helgadóttir segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart þegar hún fékk tölvupóst í lok júní um að hún hafi verið ein þeirra tólf sem voru valin í ungmennaráðið. Óskað hafi verið eftir umsóknum sl. vetur og hún hafi sótt um undir lok vorannar. Um 180 umsóknir hafi borist. Hún hafi hreint ekki búist við að verða fyrir valinu og því hafi niðurstaðan verið í senn óvænt en ánægjuleg.

Anna Kristín segir að hún sé smám saman að setja sig inn í hvað starfið í ungmennaráðinu þýði en hún viti að fulltrúar í ráðinu geti valið sér verkefni sem þeir vilji vinna að og það kunni að vera hvað sem er, svo fremi að það snerti heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Á síðasta starfsári tók ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ m.a. þátt í hátíðardagskrá 1. desember, flutti ávarp á heimsþingi kvenleiðtoga og einnig tóku tveir fulltrúar þátt í kynningu Íslands á innleiðingu heimsmarkmiðanna hér á landi á ráðherrafundi í New York í júlí sl.

En hvað fela heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í sér? Þau eru sannarlega víðfeðm og má skipta í sautján flokka; engin fátækt, ekkert hungur, heilsa og vellíðan, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, hreint vatn og hreinlætisaðstaða, sjálfbær orka, góð atvinna og hagvöxtur, nýsköpun og uppbygging, aukinn jöfnuður, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrg neysla og framleiðsla, aðgerðir í loftlagsmálum, líf í vatni, líf á landi, friður og réttlæti og samvinna um markmiðin.