Fara í efni

Angela Rawlings með fyrirlestur í Ketilhúsinu í dag

Ketilhúsið á Akureyri.
Ketilhúsið á Akureyri.

Í dag, þriðjudaginn 30. september, kl. 17 heldur Angela Rawlings fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Wild Slumber for Industrial Ecologists (Villtar svefnfarir iðnaðarvistfræðinga). Þar mun hún meðal annars fjalla um samnefnda sýningu sem nú stendur yfir í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Sýningin er árangur af samstarfi myndlistarmanna, rithöfunda og tónlistarmanna sem dvalið hafa í alþjóðlegri gestavinnustofu á Hjalteyri undanfarið. Ásamt Rawlings eru þau Elsa Lefebvre (Frakkland/Belgía), Gústav Geir Bollason (Ísland), Maja Jantar (Belgía) og Philip Vormwald (Frakkland/Þýskaland) þátttakendur í sýningunni. Eitt umfjöllunarefni hennar er iðnaðarvistfræði og rannsóknir á flæði efnis og orku í iðnaðarkerfum. Iðnaðarvistfræðingar rannsaka þróun á sjálfbærum og lokuðum kerfum þar sem úrgangur eins iðnaðar getur verið auðlind annars. Fyrirlesturinn fer fram á ensku en hann er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í röð fyrirlestra sem haldnir verða á hverjum þriðjudegi í Ketilhúsinu kl. 17 í allan vetur. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Hlynur Helgason listfræðingur, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri og myndlistarmennirnir Aðalsteinn Þórsson, Arna Valsdóttir, Stefán Boulter og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.