Fara í efni

Andleg líðan túlkuð í málverki

Ragnar Bollason við myndverk sitt.
Ragnar Bollason við myndverk sitt.

Ragnar Bollason lauk námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í desember sl.  Sem stendur starfar hann sem deildarstjóri smávörudeildar Rúmfatalagersins á Akureyri auk þess sem hann leikur með Freyvangsleikhúsinu í uppfærslunni á Fiðlaranum á þakinu. Ragnar lét heldur betur til sín taka í leiklistinni á árum sínum í VMA, síðast var hann formaður Yggdrasils, leiksfélags VMA sem setti upp leikrit Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, á haustönn. „Já, ég var mjög virkur í félagslífinu þann tíma sem ég var í VMA. Líklega fór ég í stjórn leikfélagsins strax á annarri önninni minni í skólanum og fikraði mig síðan smám saman upp í formanninn. Uppfærslan á 101 Reykjavík var mikil og dýrmæt reynsla,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að þó að honum hafi fundist myndlistin afar skemmtileg að glíma við liggi áhugi hans meira í leiklistinni. „Ég hafði mjög mikla ánægju af náminu á listnámsbrautinni og tel að það sé góður grunnur fyrir leiklistina og annað sem mig langar að vinna við í framtíðinni. Áhugi minn beinist núna í átt að leiklist eða kvikmyndagerð – einhverju skapandi þar sem sögur eru sagðar. Ég hef ekki ákveðið hvert leið mín liggur í framhaldinu en ég er núna að skoða kvikmyndanám í skóla á Írlandi sem er talinn mjög góður – og þá yrði áherslan á leikstjórn sem ég hef aðeins fiktað við í stuttmyndum. Ég sá til dæmis um kennaragrínið á árshátíðinni sl. tvo ár og fékk fín viðbrögð á það. En það kemur út af fyrir sig allt til greina – en hver sem niðurstaðan verður mun ég mjög líklega enda í einhverri skapandi grein.“

Á haustönn vann Ragnar athyglisverða mynd í málunaráfanga sem nú hangir upp á vegg gegnt austurinngangi VMA. Hann segir það ekkert launungarmál að myndin sé ákveðinn spegill á sálarlíf hans á þeim tíma sem hann vann hana. „Á þessum tíma var ég að berjast við ýmislegt og er raunar enn í þeirri baráttu. Ég berst við þunglyndi og er nýlega kominn á þunglyndislyf,“ segir Ragnar. Hann segist lengi hafa glímt við þennan draug en árið 2013 hafi farið að síga töluvert á ógæfuhliðina. Margt hafi lagst á eitt í því, m.a. ástvinamissir. „Þó svo að ég hafi átt mjög erfitt andlega þegar ég vann myndina á haustönn var ég þó á fullu í vinnu fyrir leikfélagið og það hjálpaði mér að einbeita mér að einhverju öðru. Ég er ofvirkur og með athyglisbrest og ég verð mjög órólegur þegar ég hef ekki nógu mikið að gera. Í janúar sl. var ég atvinnulaus og það fór mjög illa í mig.
Ég prófaði sálfræðimeðferð en mér fannst hún ekki gagnast mér. Ég fór því nýverið til heimilislæknis til þess að leita mér hjálpar og greindi jafnframt mínum nánustu frá líðan minni. Það var stórt skref eftir að hafa glímt við þetta í tvö til þrjú ár. Mér finnst miklu máli skipta að tala opinskátt um þetta og ég segi fólki frá þessu, það er mikilvægt.“

Þegar horft er til baka segist Ragnar hafa orðið fyrir einelti í grunnskóla frá 1. og upp í 9. bekk. „Ég sagði foreldrum mínum á þeim tíma ekki frá því í smáatriðum hvernig mér leið en mér tókst sjálfum að vinna bug á því sem ég glímdi við á þessum tíma með hjálp félagsráðgjafa. Leikarinn í mér kom fram á þessum tíma og ég náði að setja upp „pókerfeisið“ og fela mína raunverulegu líðan,“ segir Ragnar.

Vinnutitill á myndverki Ragnars var „Efasemd“ og það má sjá enska orðið „Why“ í myndinni. „Þegar horft er á myndina má sjá sprungur í húð stúlkunnar en einnig má greina smá rifu, smá vonarneista, í hurðinni. Ég notaði fáa liti í þessari mynd því ég fékk innblástur frá bíómyndinni Sin City sem er gerð í svart/hvítu. En áherslur í myndinni eru í lit – t.d. bláa augað. Á þessum tíma fannst mér stundum allt vera svart. Rauði liturinn túlkar verstu tímana en inn á milli sást í ljósrifur,“ segir Ragnar