Fara í efni

Anatómía manna og dýra

Eins konar sambræðingur af anatómíu manna og dýra var viðfangsefni nemenda á listnámsbraut í skúlptúráfanga núna á haustönn. Nemendur í þessum áfanga spreyttu sig á því að gera litla skúlptúra út frá þessu megin viðfangsefni og útkoman er hin skemmtilegasta.

Fyrsti nemendahópurinn af þremur sýnir nú afrakstur vinnu sinnar í Gallerí Glugg á aðalgangi VMA og hér má sjá útkomuna – hinir tveir munu sýna sína skúlptúra síðar í mánuðinum.

Með skúlptúrunum er tekist á við þrívíða formfræði og hefur nemendahópurinn með kennurunum Örnu Valsdóttur og Helgu Björg Jónasardóttur fengið að nýta aðstöðu í handverksmiðstöðinni Punktinum í Rósenborg. Þar hafa nemendur fengið aðgang að leirbrennsluofni en skúlptúrarnir eru úr steinleir og brenndir á sama veg og keramik. „Samstarfið við Punktinn hefur verið afskaplega ánægjulegt og gefandi og ég vil þakka kærlega fyrir að fá að nota frábæra aðstöðu þar,“ segir Arna Valsdóttir.