Fara í efni

Ánægjulegt að sjá vöxt íþrótta- og lýðheilsubrautar

Hinrik Þórhallsson kennari.
Hinrik Þórhallsson kennari.

Hinrik Þórhallsson kennari man tímana tvenna í kennslu í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann hefur kennt við skólann frá upphafi – í rösk þrjátíu ár - og fylgt ófáum nemendum í gegnum hann. Hinrik segir ánægjulegt að sjá gamlan draum um öfluga íþróttabraut til stúdentsprófs hafa orðið að veruleika. En eftir sem áður sé afar mikilvægt að byggt verði íþróttahús við skólann.

Hinrik hóf að kenna íþróttir í afleysingum við Menntaskólann á Akureyri árið 1980 en flutti sig upp á Eyrarlandsholtið þegar Verkmenntaskólinn var settur á stofn árið 1984. “Það hefur vissulega margt breyst til batnaðar á þeim ríflega þremur áratugum sem ég hef starfað hér. Ég minnist þess að til að byrja með var útbúinn þreksalur niður í kjallara og við þurftum oft að hætta æfingum þegar olíulyktin barst niður úr málmiðnaðardeildinni,” segir Hinrik og brosir.

“Upphaflega var íþróttabrautin fjögur ár en síðan var henni breytt í tveggja ára starfsnám og að henni lokinni þurftu nemendur að velja einhverja aðra braut til þess að ljúka stúdentsprófi. Þetta fyrirkomulag var óheppilegt og stóð í vegi þess að brautin næði að vaxa og dafna. En með nýrri námsskrá var tekið upp þriggja ára nám á íþrótta- og lýðheilsubraut og fyrstu nemendurnir af henni ljúka stúdentsprófi í vor. Það er ánægjulegt að sjá, eins og við töldum okkur vita, að þegar unnt yrði að taka samfellt nám á þessari námsbraut til stúdentsprófs yrði sprenging í aðsókn og nú er svo komið að íþrótta- og lýðheilsubraut er orðin ein af fjölmenntustu námsbrautum Verkmenntaskólans,” segir Hinrik.

Hann segir að enginn vafi sé á því að íþrótta- og lýðheilsubraut sé afar góður grunnur fyrir fjölbreytt nám, sem bæði tengist íþróttum og lýðheilsu. Þar megi nefna íþróttafræði og ýmis heilbrigðisfög. Með því að bæta við sig fögum á náttúrufræðibraut skólans fái nemendur góðan grunn fyrir t.d. bæði sjúkraþjálfun og læknisfræði.

“En það er afar mikilvægt að mínu mati að bæta hér íþróttaaðstöðu. Það vantar tilfinnanlega íþróttahús við skólann sem myndi nýtast honum og fjölbreyttu íþróttalífi á Akureyri. Jafnframt tel ég að slíkt hús myndi nýtast í ýmsa aðra starfsemi í skólanum. Þetta tel ég að hái okkur og hamli frekari vexti og þróun íþrótta- og lýðheilsubrautar skólans. Það er einfaldlega mikil þörf fyrir slíkt hús og staðreyndin er sú að það er alltaf erfiðara og erfiðara að fá íþróttatíma í íþróttahúsum bæjarins enda er þau afar ásetin. Það var hins vegar ákveðinn áfangasigur þegar íþróttahús var sett inn á samþykkt skipulag lóðar VMA. Hins vegar gerist ekkert meira í málinu fyrr en vilyrði fæst fyrir peningum í slíka byggingu. Það má líka nefna í þessu sambandi að Háskólinn á Akureyri er kominn með vísi að íþróttalínu og nemendur þar kalla líka eftir aðstöðu sem ekki er fyrir hendi eins og er. Vonandi getur Háskólann á Akureyri í framtíðinni boðið upp á nám í íþróttafræði en til þess að það geti orðið þarf að bæta íþróttaaðstöðuna. Það er mitt mat að upplagt væri að samnýta íþróttahús á lóð VMA fyrir bæði VMA og HA,” segir Hinrik.

Sem fyrr segir hefur er Hinrik einn þeirra kennara við VMA sem hafa starfað við skólann frá upphafi. Hann segist vera kominn á 95 ára regluna svokölluðu - sem er samanlagður líf- og starfsaldur - og gæti því verið hættur. "En eins og staðan er núna horfi ég til þess að kenna til vors og næsta vetur og láta svo staðar numið," segir Hinrik Þórhallsson.