Fara í efni

Ánægjuleg og lærdómsrík ferð til Lettlands

Þremenningarnar frá VMA ánægðir með verðlaunin.
Þremenningarnar frá VMA ánægðir með verðlaunin.

VMA hefur í vetur tekið þátt í Nordplus verkefni með skólum í Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Léttlandi og Litháen. Í síðustu viku komu nemendur og kennarar frá þátttökulöndunum saman í Riga í Léttlandi þar sem þemað var „charity“ eða góðgerðarstarf. Þrír nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut voru fulltrúar VMA í Lettlandi, Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir, Þórdís Alda Ólafsdóttir og Ísak Kárason. Með þeim í för var Sunna Hlín Jóhannesdóttir kennari.

Þetta Nordplus verkefni hófst sl. haust þegar fulltrúar þátttökulandanna heimsóttu VMA. Aftur hittust fulltrúar skólanna í nóvember í Finnlandi, í janúar í Litháen, núna í mars í Lettlandi og verkefninu lýkur síðan í Eistlandi í maí nk.

„Í hverri svona þemaviku er tekið fyrir eitt ákveðið málefni og núna var það „charity“ eða góðgerðarstarf. Áður en við fórum út skrifuðum við stutta ritgerð um þetta efni og gerðum sömuleiðis þriggja mínútna myndband. Ritgerðin okkar var dæmd sú þriðja besta en við fengum fyrstu verðlaun fyrir myndbandið,“ segir Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir og bætir við að ferðin hafi í alla staði verið mjög lærdómsrík og skemmtileg. „Það er mjög gaman að fá tækifæri til þess að kynnast öðruvísi menningu og um leið að kynnast nýjum krökkum. Það var líka skemmtileg áskorun að standa fyrir framan krakka og kennara frá öðrum löndum og flytja mál okkar á ensku. Ég held að sé óhætt að segja að við munum aldrei gleyma þessari ferð, hún var mjög lærdómsrík,“ segir Guðrún Vaka.

Á meðfylgjandi mynd eru Guðrún Vaka, Þórdís Alda og Ísak þegar þau tóku við viðurkenningu fyrir besta myndbandið. Með þeim á myndinni eru kennarar frá Lettlandi og Litháen.