Fara í efni

Ánægjuleg heimsókn í Hyrnu/Húsheild

Á innréttingaverkstæði Hyrnu ehf.
Á innréttingaverkstæði Hyrnu ehf.

Það skiptir miklu máli að skólinn – kennarar og nemendur – séu í góðu og stöðugu samtali við atvinnulífið. Hagurinn af því er gagnkvæmur; skólinn vill fylgjast vel með því sem er að gerast í atvinnulífinu, m.a. varðandi tæknilausnir og tækniþróun, og hagur atvinnulífisins er að vel takist til með menntun framtíðarstarfsmanna.

Það er því alltaf ánægjulegt þegar fyrirtæki vilja kynna sig og það sem þau eru að fást við hverju sinni. Slíkt er mikilvægt til þess að bæta í þekkingarsarp nemenda og kennara. Á dögunum buðu byggingarfyrirtækin Hyrna ehf og Húsheild kennurum og nemendum í húsasmíði, þ.e. útskriftarnemendum og nemendum í kvöldskóla, til kynningar á starfsemi fyrirtækjanna í húsnæði Hyrnu á Akureyri. Meðal annars kynntu fyrirtækin ýmis verkefni sem þau eru að fást við og hafa verið að fást við, verkferlar voru kynntir og utanumhald verka og loks var innréttingaverkstæði Hyrnu sýnt og veitt innsýn í það nýjasta í tæknibúnaði, efnisvali og þróun innréttingasmíði.

Þessi heimsókn í Hyrnu/Húsheild var í senn fróðleg og gagnleg og vill byggingadeild VMA koma á framfæri bestu þökkum fyrir móttökurnar.