Fara í efni

Ánægjuleg heimsókn frá Dvalarheimilinu Hlíð

Gestirnir af Hlíð með kennurum og skólastjórnendum
Gestirnir af Hlíð með kennurum og skólastjórnendum
VMA fékk sannarlega ánægjulega heimsókn í vikunni þegar sex eldri borgarar frá Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri ásamt tveimur starfskonum komu í heimsókn og skoðuðu skólann. Af þessum sex eru tveir heimilismenn á Hlíð en fjórir nýta sér svokallaða dagþjálfun þar.
Til fjölda ára hefur VMA átt í mjög góðu samstarfi við Dvalarheimilið Hlíð, t.d. hafa sjúkraliðanemar á hverjum vetri verið þar í starfsþjálfun. Á þessari önn hafði Íris Ragnarsdóttir kennari á brautarbrú VMA frumkvæði að því að koma á heimsóknum nemendahópa á brautarbrú á Hlíð og kynnast því merka starfi sem þar fer fram. Þessar heimsóknir hafa tekist með miklum ágætum og er ástæða til þess að þakka sérstaklega þær móttökur sem krakkarnir hafa fengið í heimsóknum sínum á Hlíð.
Og sl. miðvikudag var síðan komið að því að taka á móti góðum gestum af Hlíð. Að sjálfsögðu var byrjað á því að bjóða þeim upp á rjúkandi morgunkaffi og bakkelsi sem nemendur á brautarbrú höfðu bakað undir stjórn Ara Hallgrímssonar á matvælabraut. Og síðan var gestunum kynnt starfsemi á nokkrum verknámsbrautum; rafiðnaðarbraut, byggingadeild, hársnyrtibraut, málmiðnaðarbraut og bifvélavirkjun. Einnig kynntu þeir sér fjölbreytta vinnu nemenda á listnámsbraut.
Hinum góðu gestum af Hlíð er þökkuð heimsóknin og vonandi er hún aðeins byrjunin á frekara samstarfi af þessum toga í framtíðinni, enda skemmtilegur liður í því að brúa kynslóðabilið.
Hér eru myndir sem voru teknar sl. miðvikudag þegar gestirnir skoðuðu skólann.