Fara í efni

Ánægður með skólann og dvölina á Akureyri

Esra Antille, skiptinemi frá Freiburg í Sviss.
Esra Antille, skiptinemi frá Freiburg í Sviss.

Esra Antille er sextán ára gamall skiptinemi frá Freiburg í Sviss og stundar nám í vetur í VMA. Hann kom til Akureyrar 19. ágúst sl. og hóf fljótlega nám í VMA. Hann lætur vel af náminu og dvölinni á Íslandi.

Esra segist hafa fengið hvatningu til þess að verja einu ári sem skiptinemi í framandi landi. Þrjú lönd voru á óskalistanum, Ísland var þar efst og Esra fékk ósk sína uppfyllta. Akureyri varð niðurstaðan og hér er hann mjög ánægður með bæði fósturfjölskyldu og skólavistina í VMA. Í mörg horn er að líta og Esra lærir fjölmargt, t.d. íslensku, þýsku, ensku, náttúru- og menningarlæsi auk lífsleikni og íþrótta og útivistar. „Áfangakerfið í VMA er nokkuð frábrugðið því sem ég þekki í Sviss en ég kann mjög vel við þetta fyrirkomulag,“ segir Esra en hann hefur þýsku að móðurmáli. Í Sviss eru einnig töluð franska og ítalska.

„Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun að koma hingað í skiptinám. Að vera fjarri heimahögum er góð reynsla og styrkir mann. Ég verð á Íslandi fram í júní á næsta ári,“ segir Esra.

„Ég hafði ekki gert mér mótaðar hugmyndir um Ísland en ég held að í stórum dráttum sé landið í líkingu við það sem ég hafði ímyndað mér. Náttúran er falleg og fjölbreytt og fólkið er hjálpsamt og vingjarnlegt,“ segir Esra og bætir við að vissulega sé íslenskan nokkuð snúin en hann njóti skilnings bæði kennara og nemenda sem aðstoði hann við að skilja það sem fram fer í kennslustundum.