Fara í efni

Vil starfa í skapandi umhverfi

Dagný Hulda Valbergsdóttir.
Dagný Hulda Valbergsdóttir.

Dagný Hulda Valbergsdóttir hefur hafið störf í VMA. Hún starfar annars vegar á bókasafninu og hins vegar vinnur hún að erlendum samstarfsverkefnum skólans. Dagný tekur við þessum störfum af Hildi Friðriksdóttur sem hóf í ársbyrjun störf sem verkefnastjóri/alþjóðafulltrúi við Háskólann á Akureyri.

Dagný Hulda er Akureyringur. Hún brautskráðist af félagsfræðibraut VMA árið 2010 og fór í framhaldinu í BA-nám í þjóðfræði við Háskóla Íslands og síðan í MA-nám í menningarmiðlun við sama skóla – með áherslu á gerð útvarpsþátta og heimildamyndagerð. Námi sínu lauk hún vorið 2017.

Hún hefur starfað í um áratug í ferðaþjónustu, m.a. á Árbæjarsafni, í Laufási við Eyjafjörð, á hótelum og um tveggja ára skeið starfaði hún sem ökuleiðsögumaður með erlenda ferðamenn - fyrst og fremst í dagsferðum frá Akureyri. Síðustu árin hefur hún verið við störf á sjónvarpsstöðinni N4 á Akureyri, þar sem hún annaðist upptökustjórn, klippingar og dagskrárgerð.

Dagný segist mjög ánægð og spennt að takast á við þetta starf í VMA, gaman sé að endurnýja kynnin við gamla skólann sinn. „Ég sæki í að starfa í skapandi umhverfi og er mjög ánægð með að fá tækifæri til þess að vinna með ungu fólki, að leiðbeina því og aðstoða. Ég tók sjálf á yngri árum þátt í erlendum samstarfsverkefnum og því finnst mér afar spennandi að eiga þess kost að vinna að slíkum verkefnum hér í skólanum. Sem stendur eru nokkur áhugaverð samstarfsverkefni í gangi sem ég hef verið að kynna mér og hlakka til þess að takast á við þau,“ segir Dagný Hulda.