Fara í efni

Amelía Ósk og Bergrós Vala á leið á Nordic Skills

Amelía Ósk (t.v.) og Bergrós Vala.
Amelía Ósk (t.v.) og Bergrós Vala.

Þann 24. maí nk. munu Amelía Ósk Hjálmarsdóttir og Bergrós Vala Marteinsdóttir, útskrifaðir sjúkraliðar frá VMA, taka þátt í keppninni Nordic Skills í Osló í Noregi. Þátttökurétt í keppninni tryggðu þær sér með því að skipa sigurlið VMA í Íslandsmóti iðn- og verkgreina í mars á síðasta ári. Nordic Skills er Norðurlandamót þar sem sjúkraliðar frá Norðurlöndunum keppa sín á milli.

Nordic Skills er einstaklingskeppni. Amelía Ósk og Bergrós Vala ætla að undirbúa sig af kostgæfni í aðdraganda keppninnar í Osló og njóta við það stuðnings Helgu Margrétar Jóhannesdóttur, sjúkraliða sem árið 2014 sigraði á Íslandsmóti iðn- og verkgreina ásamt Önnu Fanneyju Stefánsdóttur. Helga Margrét stundar nú nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.

Amelía Ósk segir að hún hafi vitað til þess að nemendur í öðrum verkgreinum sem hafi sigrað í sínum greinum í Íslandsmótinu hafi tryggt sér farseðil í frekari keppni erlendis. Hún hafi því farið að spyrjast fyrir um hvort sjúkraliðum stæði slíkt ekki til boða. Þessi fyrirspurn leiddi til þess að þær Amelía Ósk og Bergrós Vala og Helga Margrét þjálfari þeirra eru á leið til Osló í maí og er þetta í fyrsta skipti sem sjúkraliðar frá Íslandi taka þátt í slíkri keppni utan landssteinanna. Sjúkraliðafélag Íslands styður vel fjárhagslega við för þeirra þriggja á Nordic Skills.

Keppnin felst í því að leysa tvö verkefni. Keppendur fá fyrirfram fimm verkefni og geta undirbúið sig af kostgæfni. Þegar síðan í keppnina kemur eru tvö af þessum fimm verkefnum dregin og þau þurfa keppendur að leysa.

"Ég er mjög spennt fyrir þessari keppni og hún veitir okkur ákveðna reynslu," segir Amelía Ósk. Hún og Bergrós Vala starfa við heimahjúkrun hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Auk 80-100% vinnu við heimahjúkrunina er Amelía að ljúka fyrsta árinu í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Hún rifjar upp að tilviljun ein hafi ráðið því að hún ákvað að fara í sjávarútvegsfræði. "Ég fór á háskólakynningu og hafði í huga að kynna mér hjúkrunarfræði. Við hliðina var verið að kynna sjávarútvegsfræði og ég heillaðist svo af henni að ég ákvað að slá til og sé ekki eftir því. Þetta er krefjandi en mjög skemmtilegt nám. Það kom mörgum í fjölskyldunni í opna skjöldu að ég sjúkraliðinn skyldi ákveða að fara í sjávarútvegsfræði því ég á engin bein tengsl við sjávarútveginn. Það verður að koma í ljós hvað ég geri að loknu þessu námi en hvernig sem allt fer með mun ég alls ekki leggja sjúkraliðann á hilluna. Þetta er svo gefandi og áhugavert starf," segir Amelía Ósk.

Á meðfylgjandi mynd eru sjúkraliðarnir Amelía Ósk og Bergrós Vala þegar þær tryggðu sér titilinn á Íslandsmóti iðn- og verkgreina í mars 2017. Sigurinn tryggði þeim farseðilinn á Nordic Skills.