Fara í efni

Alþýðulist í þriðjudagsfyrirlestri

Pierre Leichner myndlistarmaður og geðlæknir.
Pierre Leichner myndlistarmaður og geðlæknir.

Kanadíski myndlistarmaðurinn Pierre Leichner heldur Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri í dag, 14. október kl. 16.15, undir yfirskriftinni Outsider Arts and Arts Outside. Aðgangur er ókeypis.

Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, fjallar Leichner um sögu alþýðulistar, þróun hennar og núverandi stöðu innan menningargeirans. Einnig fjallar hann um umhverfislist og kynnir þau verkefni sem hann vinnur nú að sem gestalistamaður Gilfélagsins.

Leichner lauk MFA námi í myndlist 2011 og er stofnandi listahátíðarinnar Vancouver Outsider Arts Festival sem haldin hefur verið síðastliðin níu ár. Hann er jafnframt í listasamfélaginu Connection Salon og situr í stjórn samfélagslistanefndar Vancouver. Leichner vinnur verk sín oftast með blandaðri tækni og blandar gjarnan saman umhverfislist, innsetningum og þátttökulist. Eftir 35 ára feril sem geðlæknir hefur hann verið sjálfstætt starfandi listamaður síðan 2011. „Sífellt fleiri sannanir finnast fyrir því að þátttaka einstaklinga í listum og menningu leiði til betri andlegrar heilsu og velferðar. Það er því afar mikilvægt að listamenn taki þátt í rannsóknarvinnu innan þeirra samfélaga sem þeir búa í,“ segir Leichner.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir í vetur eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins.