Fara í efni

Alstirnd himinfesting blá

Hreiðar Kristinn Hreiðarsson við akrílverkið sitt.
Hreiðar Kristinn Hreiðarsson við akrílverkið sitt.

Akureyringurinn Hreiðar Kristinn Hreiðarsson lýkur í vor námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA. Hann byrjaði reyndar á sínum tíma í grunndeild málmiðnaðar en færði sig yfir á listnámsbraut eftir eina önn og er þegar upp er staðið mjög sáttur með þá ákvörðun.

„Mér hefur fundist mjög gaman í þessu námi og það hefur komið mér á óvart að maður getur gert miklu meira en maður fyrirfram heldur. Þetta er að hluta til klárlega spurning um sjálfstraust, að hafa trú á því sem maður er að gera. Námið hefur verið mjög skemmtilegt og þessi ár hafa liðið ótrúlega fljótt,“ segir Hreiðar Kristinn.

Síðustu vorannir höfum við birt hér á heimasíðunni myndir sem nemendur í áfanganum MYL 504 hafa unnið á haustönn en í þessum áfanga vinna nemendur lokaverkefni sem yfirleitt er akrílmálverk. Núna á vorönn birtum við myndir af málverkum nemenda í MYL 504 á liðinni haustönn fyrsta málverið sem við birtum mynd af er málverk Hreiðars Kristins sem nú hangir uppi á vegg við austurinngang skólans. Í þessu akrílmálverki leikur Hreiðar Kristinn sér með alstirndan himininn, náttúru og spegilmynd í vatni.

„Ég hef enn sem komið er ekkert ákveðið með framhaldið eftir að ég lýk námi í vor. Ég ætla að einbeita mér að því að klára stúdentsprófið af listnámsbraut og skoða möguleikana eftir það. Ég hef ekkert ákveðið með frekara listnám og það kemur vel til greina að fara í eitthvað allt annað. Þetta kemur í ljós í fyllingu tímans,“ segir Hreiðar Kristinn.