Fara í efni

Allir nýnemar í rafiðngreinum fengu spjaldtölvur að gjöf

Í dag voru öllum nýnemum í rafiðnaðardeild VMA færðar að gjöf spjaldtölvur frá Samtökum rafverktaka (SART) og Rafiðnaðarsambandi Íslands (RSÍ) fyrir hönd allra atvinnurekenda og launþega í rafiðnaði. Megintilgangur gefenda er að tryggja að nemendur geti nýtt sér það mikla úrval af kennsluefni sem er þegar í boði á rafrænu formi og stuðla að betri námsárangri og fjölgun nemenda í þessum greinum, en mikil vöntun er á rafiðnaðarmönnum á Íslandi. 

Óskar Ingi Sigurðsson, brautarstjóri rafiðngreina í VMA, er afar þakklátur gefendum fyrir að ráðast í þetta átak. „Þessi spjaldtölvuvæðing núna er afleiðing af nokkurra ára frumkvöðlastarfi Ísleifs Jakobssonar á fræðsluskrifstofu rafiðna. Hann byrjaði að safna námsefni og stofnaði vef sem heitir www.rafbok.is til að veita nemum gjaldfrjálsan aðgang að námsefni. Þetta verkefni óx hratt og með aðstoð Rafiðnaðarsambands Íslands hefur nú verið ráðinn starfsmaður til að sjá um að safna efni og halda utanum þetta starf. Nú er vefurinn að dekka næstum allt námsefni í grunndeild og stóran hluta af rafvirkjun. Og spjaldtölvuvæðingin er til að veita nemendum aðgengi að þessu efni án þess að þurfa að prenta út öll skjöl,“ segir Óskar Ingi.

 

Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir af formlegri afhendingu spjaldtölvanna í VMA í gær.