Fara í efni

Allir leggjast á eitt

Benedikt Barðason og Anna María Jónsdóttir.
Benedikt Barðason og Anna María Jónsdóttir.

Verkefni stjórnenda og allra starfsmanna Verkmenntaskólans á Akureyri frá því að ákveðið var að setja á samkomubann hafa ekki verið hefðbundin, enda er allt samfélagið að takast á við nýjan og óþekktan veruleika. Síðasti hefðbundi skóladagur þar sem nemendur mættu í skólann var sl. föstudagur og nú er tekinn við nýr veruleiki í skólastarfinu. Kennsla er áfram í fullum gangi en með nýjum formerkjum. Eftir sem áður verður hefðbundið fjarnám VMA óbreytt. Breytingin er hins vegar sú að fjarnám hefur verið útvíkkað – meira og minna til allra námsbrauta skólans. Skólahúsin eru lokuð fyrir aðra en starfsmenn og aðeins hluti þeirra vinnur í skólanum, fjölmargir kennarar sinna kennslu frá heimilum sínum.

Benedikt Barðason skólameistari og Anna María Jónsdóttir aðstoðarskólameistari segja að í mörg horn hafi verið að líta við að skipuleggja skólastarfið næstu daga og vikur en það hafi gengið vel og almennt séu starfsmenn og nemendur skólans tilbúnir að leggjast á eitt til að hlutirnir gangi eins vel upp og mögulegt er í skólastarfinu í breyttum heimi.

Benedikt: Samkomubannið kom okkur ekki alveg í opna skjöldu og við vorum nokkuð viss um að á einhverjum tímapunkti yrði það sett á. Við höfðum því gert ákveðnar ráðstafanir í samstarfi við nemendafélagið hér eins og að aflýsa árshátíð nemenda og um liðna helgi átti að vera svokallað LAN-mót sem einnig var búið að aflýsa fyrir nokkrum dögum. Stórum starfsmannafundi var sömuleiðis aflýst svo og námsferðum nemenda og kennara til útlanda. Ég hafði hins vegar vonast til þess að unnt yrði að halda úti hefðbundnu skólastarfi í þessari viku en því miður gat ekki af því orðið. Hlutirnir hafa hins vegar í öllu þessu ferli tekið hröðum breytingum og við því hefur þurft að bregðast á hverjum tíma. Við höfðum hitt alla fag- og brautastjóra í vikunni áður til þess að ræða við þá um þann möguleika að þetta gæti gerst fyrirvaralaust og því væri mikilvægt að þeir ræddu þessi mál við sitt fólk til þess að safna í sarpinn hugmyndum og tillögum um breytta nálgun í kennslu og framsetningu námsefnis ef til samkomubanns kæmi og þyrfti að senda nemendur heim.
Anna María: Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði verið stöðugt í sambandi við okkur stjórnendur skólanna og búið okkur undir og kallað eftir hugmyndum skólanna um hvernig þeir gætu sem best brugðist við og hvaða leiðir væru færar til að ljúka skólaárinu.
Benedikt: Þetta gerist mjög snöggt síðastliðinn föstudag og því gafst okkur ekki tóm til þess að fara yfir málin með nemendum, sem var óþægilegt.
Anna María: Þess vegna unnu kennarar að því í gær og áfram í dag að hafa tal af nemendum sínum og fag- og brautarstjórar hafa þessa fyrstu tvo daga þessarar kennsluviku unnið að því að leggja línur um framhaldið með kennurunum og hvernig þeir hafi hugsað sér að haga sinni kennslu í mismunandi áföngum.
Benedikt: Við stjórnendur skólans vorum í samskiptum við fag- og brautarstjórana fyrir helgi og við hittum þá síðan alla í gær á fundi þar sem við heyrðum frá hverjum og einum hvernig staðan væri á þeirra brautum, hvaða verkefni væru í gangi, hvernig staðan væri á t.d. fagbóklegum áföngum, hvort möguleiki væri á því að hraða yfirferð á þeim næstu vikurnar í fjarkennslu og geta þá að þessu tímabili loknu unnið eftir nýrri stundatöflu þar sem öll áhersla yrði á verklegu kennsluna. Eðli málsins samkvæmt er alveg ljóst að hvað verklegu brautirnar varðar er þetta mun flóknara og erfiðara viðfangsefni en í bóklega náminu og verklegu greinarnar sem við kennum hér eru einnig ólíkar og að sama skapi er staðan á þeim afar mismunandi. Það er ekki hægt að gefa út að ein lausn sé betri en önnur í þessari fordæmalausu stöðu sem kennarar og nemendur í verknámi hafa aldrei staðið frammi fyrir áður. Lausnirnar og bestu leiðirnar verða til í samtali og samstarfi nemenda og kennara og sú vinna er þegar komin í fullan gang.
Anna María: Í einhverjum tilfellum hafa nemendur tekið með sér smíðagripi og verkfæri heim til þess að vinna að heima og t.d. á listnáms- og hönnunarbrautinni tóku nemendur með sér heim ýmsa hluti til þess að vinna áfram með heima og síðan fer kennslan fram með myndsamtölum og/eða miðlun myndbanda milli kennara og nemenda. Hér í skólanum er búið að koma upp tækniveri þar sem kennarar geta t.d. tekið upp myndbönd til þess að senda nemendum og það sama á við um fagteikninguna.
Við höfum lagt á það áherslu að miðla eins greinargóðum upplýsingum til nemenda og forráðamanna þeirra og okkur hefur verið unnt og miðað við hversu lítið er um að fólki hringi á skrifstofu skólans til þess að fá upplýsingar virðist hafa tekist vel að koma upplýsingum frá skólanum til fólks. Frá því sl. föstudag höfum við sent marga upplýsingapósta á nemendur, forráðamenn þeirra og starfsfólk skólans. Það munum við gera áfram því eftir sem áður er okkar hlutverk að halda uppi starfsemi og virkni í skólastarfinu.
Benedikt: Við leggjum mikla áherslu á samskipti kennara við nemendur og forráðamenn. Lykilatriði að við getum unnið eins vel úr þessari flóknu og erfiðu stöðu og mögulegt er og að skólinn sjái til þess að þessi tenging og samskipti rofni ekki. Þessi breytta staða mun að sjálfsögðu hafa áhrif á námsmat því hópverkefni sem til stóð að vinna hér á staðnum verða ekki unnin o.s.frv. Mismunandi er hvernig kennarar nálgast kennsluna við breyttar aðstæður. Í einhverjum tilfellum kenna þeir í fjarnámi samkvæmt stundaskrá annarinnar, það er að segja að þeir verða í sambandi við sína nemendur í gegnum tölvur og kenna þeim þannig á sama tíma og þeir hefðu kennt í skólastofu hér í skólanum. Aðrir kennarar nálgast verkefnið með öðrum hætti. Nálgun kennaranna í kennslunni er því mismunandi enda eru námsgreinarnar og -brautirnar ólíkar.
Anna María: Tæknilausnirnar sem kennarar nýta sér eru mismunandi, hvort sem er í Moodle, Google eða einhverju öðru. Þessar lausnir þekkja bæði kennarar og nemendur og þær skila sér vel. Við höfum lagt á það áherslu að í þessari stöðu felist líka ákveðin tækifæri. Allir þurfa að takast á við nýjan veruleika og hugsa málin svolítið upp á nýtt. Ég veit að kennarar hafa þessa síðustu daga prófað sig áfram með nýjar tæknilausnir til þess að nýta sér í kennslunni og miðlun upplýsinga til nemenda. Ýmsar þær lausnir sem kennarar hafa verið að prófa sig áfram með munu þeir svo örugglega nýta sér áfram þegar þessu tímabili lýkur.