Fara í efni

Allir í Lífshlaupið!

Næstkomandi miðvikudag hefst árlegt Lífshlaup – Landskeppni í hreyfingu sem er átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Megin markmið Lífshlaupsins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Farið er eftir ráðleggingum Landlæknisembættisins um hreyfingu þar sem æskilegt er að fullorðnir hreyfi sig í a.m.k. 30 mínútur á dag en börn yngri en 15 ára í a.m.k. 60 mínútur á dag.

Lífshlaupið er fjórþætt, í fyrsta lagi fyrir vinnustaði, í öðru lagi grunnskóla, í þriðja lagi framhaldsskóla og í fjórða lagi er síðan einstaklingskeppni. Allar þrjár fyrstnefndu keppnirnar hefjast nk. miðvikudag, 4. febrúar, og grunnskóla- og framhaldsskólakeppninni lýkur 17. febrúar. Vinnustaðakeppninni lýkur hins vegar 24. febrúar. Einstaklingskeppnin stendur allt árið.

Til þess að taka þátt í Lífshlaupinu þarf að skrá sig inn á heimasíðuna www.lifshlaupid.is og þar er hægt að fá allar nánari upplýsingar m.a. um hvaða reglur gilda um hvaða hreyfingu má skrá.

Og þá er um að gera fyrir bæði nemendur og starfsmenn VMA að taka þátt í Lífshlaupinu. Öll hreyfing er gulls ígildi.