Fara í efni

Allir í hlaupaskóna - Vorhlaup VMA verður fimmtudaginn 6. apríl!

Sindri og Victoria frá Þórdunu kynntu hlaupið.
Sindri og Victoria frá Þórdunu kynntu hlaupið.

Vorhlaup VMA verður haldið í þriðja sinn að viku liðinni, fimmtudaginn 6. apríl nk. Hlaupið verður frá Menningarhúsinu Hofi kl. 17.30 og í boði eru bæði 5 km og 10 km hlaupaleiðir. Keppt verður í þremur flokkum: opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri og fer tímataka fram með flögum.

Í fyrra var Vorhlaup VMA 14. apríl og þá voru þátttakendur á annað hundrað. Þess er vænst að þátttakan verði ekki minni í ár. Allar upplýsingar um Vorhlaupið er að finna hér á hlaupavefnum hlaup.is. Og hér er skráning í hlaupið. Þáttakendur eru hvattir til þess að geyma ekki fram á síðasta dag að skrá sig. Það er um að gera að nýta þetta tækifæri til þess að spretta úr spori, svona rétt fyrir páskaleyfi og áður en páskaeggjavertíðin hefst fyrir alvöru.

Sindri Snær Konráðsson og Victoria Rachel Moreno, stjórnarmenn í Þórdunu, kynntu Vorhlaup VMA í löngufrímínútunum í gær og mættu að sjálfsögðu í hlaupagallanum og öryggisvestum. 

Þeir sem ekki ætla að spretta úr spori í Vorhlaupinu geta þó lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að skrá sig sem starfsmenn í hlaupinu. Í mörg horn er að líta með brautarvörslu, verðlaunaafhendingu o.fl. og taka skipuleggjendur allri hjálp fagnandi. Um að gera að setja sig í samband við kennarana Ólaf H. Björnsson og Valgerði Dögg Jónsdóttur.