Fara í efni

Mikilvægt að virkja alla

Áslaug Kristjánsdóttir.
Áslaug Kristjánsdóttir.

Á 61. landsþingi Landssambands hestamannafélaga á Akureyri fyrr í þessum mánuði voru heiðraðir nokkrir Norðlendingar sem lengi hafa unnið ómælt starf í þágu hestamennskunnar í fjórðungnum og á landsvísu. Ein af þeim sem fengu viðurkenningu er Áslaug Kristjánsdóttir, stuðningsfulltrúi í VMA.

„Ég fæddist inn í hestamennskuna og drakk hana í mig kornung. Faðir minn, Kristján Hermannsson, var mikill hestamaður og móðir mín, Sigríður Þórlaug Elsa Björg Sveinsdóttir, var líka í hestamennskunni, en þó ekki eins mikið. Ég fæddist í Reykjavík en fluttist barnung norður í Eyjafjörð. Pabbi var frá Leyningi í Eyjafjarðarsveit en mamma kom að austan. Pabbi gerði allt í hestamennskunni, þar með talið að temja hross og setti á stofn tamningastöð með Sigurði Jósefssyni í Torfufelli. Þetta var mikil nýlunda á þessum tíma – á sjötta áratug síðustu aldar. Ég ólst upp í Leyningi og byrjaði snemma að temja, lærði af pabba og öðrum sem voru í kringum mig á þessum tíma. Hræðsla við hesta var ekki til í minni orðabók. Ég sótti grunnskóla í Sólgarði í gamla Saurbæjarhreppi, fór síðan í Gagnfræðaskólann á Akureyri og sótti í framhaldinu um skólavist í Bændaskólanum á Hólum en var synjað vegna þess að ég væri kona,“ rifjar Áslaug upp og brosir.

Hún fór því aðra leið, sótti fjölda námskeiða er lutu að því að vinna með fatlaða og lauk formlegu námi sem meðferðar- og stuðningsfulltrúi. Um tíma starfaði hún á Sólborg á Akureyri sem hún segir að hafi verið mjög skemmtilegur vinnustaður, var þar m.a. yfir sundlauginni um skeið. „Ég hef unnið í þessum geira síðan 1982,” segir Áslaug.

Árið 1985 fékk Kristján faðir Áslaugar heilablóðfall og hann lést árið eftir. Heilablóðfallið gerði það að verkum að margt í daglegu lífi breyttist á einni nóttu. Með aðstoð Áslaugar gat Kristján þó farið á hestbak og í kjölfarið fannst Áslaugu að full ástæða væri til þess að fatlaðir gætu notið þess eins og aðrir að fara á hestbak. Endirinn var sá að hún setti ásamt Jónsteini Aðalsteinssyni á fót námskeið í hestamennsku fyrir fatlaða og með þau voru þau til fjölda ára, bæði á Akureyri og í tengslum við sumardvöl fatlaðra á Botni í Eyjafjarðarsveit.

Til fjölda ára hefur Áslaug starfað í íþróttahreyfingunni, sem formaður íþróttadeildar hestamannafélagsins Léttis á Akureyri og á vettvangi Íþróttabandalags Akureyrar og Íþróttasambands Íslands. Hún segist alltaf hafa haft það að leiðarljósi í sínum störfum að íþróttir séu og eigi að vera fyrir alla.

Um tíma starfaði Áslaug á Hæfingarstöðinni við Skógarlund en vann síðan við þjónustuíbúðir fyrir geðfatlaða við Skútagil – og grípur enn í þá vinnu. En mörg síðustu ár hefur Áslaug fyrst og fremst verið stuðningsfulltrúi í VMA, þar sem hún hefur unnið náið með Rögnvaldi Símonarsyni við að styðja nemendur í starfsnámi. „Áhugamál mitt er að virkja fólk og gefa öllum tækifæri til þess að vinna. Virkni hefur alltaf verið mikilvæg og gefist vel,” segir Áslaug en stundum hefur hún farið með nemendur sína af starfsbraut í hesthúsið og upplifað hversu jákvæð og góð áhrif hrossin hafa á viðkomandi.

„Ég er stolt af vinnunni hér í VMA og mér finnst hún hafa borið árangur. Við sem störfum á starfsbrautinni erum þéttur og góður hópur sem vinnur vel saman og ég hef haft mikla ánægju af því að starfa með öllu þessu góða fólki og nemendunum, sem margir leita áfram til mín þótt þeir séu ekki lengur í námi hér,” segir Áslaug Kristjánsdóttir.