Fara í efni

Algjört ævintýri

Axel Flóvent.
Axel Flóvent.

Það er alltaf áhugavert að fylgjast með hvað útskrifaðir nemendur VMA eru að fást við í sínu daglega lífi. Tónlistarmaðurinn bráðefnilegi, Axel Flóvent, útskrifaðist af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar vorið 2015 og raunar var hann þá þegar svo upptekinn í tónlistinni að hann gat ekki verið viðstaddur brautskráninguna í Hofi. Tímanum frá útskriftinni fyrir um fimmtán mánuðum lýsir Axel sem „algjöru ævintýri“.

Tónlistarferlinn hóf Axel ungur að árum í heimabæ sínum, Húsavík, og hélt hann markvisst áfram á tónlistarbrautinni til hliðar við myndlistarnámið í VMA. Meðal annars kom hann nokkrum sinnum fram með gítarinn sinn á Backpackers á Akureyri. Þá þegar voru margir sem til Axels heyrðu með það á hreinu að einn góðan veðurdag myndi nafn hans verða bærilega þekkt í tónlistarheiminum á Íslandi. Að VMA loknum ákvað Axel að flytjast til Reykjavíkur og leggja sál sína í tónlistina. Smám saman fór tónlist hans að ná eyrum fleiri og lög fóru ofarlega á vinsældalista útvarpsstöðva.

Til að byrja með starfaði Axel með litlu útgáfufyrirtæki í Bretlandi en snemma á þessu ári samdi hann við Sony Music Entertainment um útgáfu smáskífu og að henni (með fjórum lögum) hefur hann verið að vinna að undanförnu, auk þess að spila á fjölda tónlistarhátíða í Evrópu. Nú þegar er eitt þessara fjögurra laga komið í spilun – Your Ghost – en hin þrjú lögin sem eru væntanleg á smáskífunni hafa ekki heyrst áður. Gert er ráð fyrir að smáskífan komi út í október eða nóvember.

„Þegar ég fór suður eftir að hafa lokið við VMA má segja að ég hafi stokkið út í djúpu laugina og í henni hef ég verið meira og minna síðan. Ég hef helgað mig tónlistinni, eins og ég hafði alltaf í huga, og hef verið að túra og semja tónlist. Í sumar hef ég komið fram á mörgum tónlistarhátíðum þar sem hefur m.a. verið fólk sem tengist tónlistarbransanum á einn eða annan hátt. Núna í september mun ég fara í þriggja vikna túr um Evrópu og í það minnsta spila í Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og Danmörku. Sony Music er með skrifstofur sínar í Evrópu í Hollandi og Belgíu og ég mun núna í september taka upp efni á smáskífuna í hljóðveri í Belgíu. Hljómsveitin sem hefur verið að spila með mér mun verða með mér í þessum upptökum. Frá því að ég gaf út mín fyrstu lög hefur tónlistin mín breyst – ekki síst með tilkomu hljómsveitarinnar sem spilar með mér. Ég hygg að hún höfði núna til breiðari aldurshóps,“ segir Axel.

Það er gaman að heyra þróun í tónlist Axels. Í Forest fires, einu af hans fyrstu lögum, er hann á hugljúfum nótum með kassagítarinn og það sama má segja um lagið Beach. Á öldum ljósvakans hefur lag Axels, Dancers, þar sem hann nýtur liðsinnis fleiri tónlistarmanna, fengið töluverða spilun síðustu mánuði.

Axel segist vera orðinn töluvert sjóaðri núna í tónlistarbransanum en hann hafi verið fyrir um hálfu öðru ári. Hann segist hafa aðgang að hljóðveri í Reykjavík þar sem hann nýti margar stundir til þess að semja nýja tónlist. Axel segir að þrátt fyrir að líf sitt sem tónlistarmaður sé ekki alltaf dans á rósum, ekki síst fjárhagslega, haldi hann ótrauður áfram á þessari braut. Gott sé að eiga góða að, sem geti gefið honum góð ráð og nefnir hann í því sambandi frænda hans, tónlistarmanninn Ásgeir Trausta, en hann hefur sem kunnugt er verið að spila út um allan heim, auk þess að vinna að nýju efni sem væntanlegt er á nýrri plötu.

Að lokinni tónleikaferðinni og upptökum á nýju efni í september tekur Iceland Airways við í október og í nóvember hyggst Axel þiggja boð um að koma fram á tónleikum í Frakklandi og Kanada. Það er því óhætt að segja að í mörg horn sé að líta hjá Axel Flóvent og það hefur komið á daginn, eins og margir spáðu þegar hann var í VMA, að hann myndi láta að sér kveða í tónlistinni í framtíðinni. Og við eigum örugglega eftir að heyra mikið frá þessum geðþekka og hógværa tónlistarmanni á næstu árum.