Fara í efni

Aldrei dauð stund hjá Sveini

Sveinn Sigurbjörnsson.
Sveinn Sigurbjörnsson.

Sveini Sigurbjarnarsyni líður best þegar hann hefur nóg að gera. Og sannarlega hefur hann í mörg horn að líta. Hann er á öðru ári á viðskipta- og hagfræðibraut í VMA og er þar með þéttskipaða stundaskrá, hann er í stjórn nemendafélagsins Þórdunu og þess utan æfir hann hnefaleika af kappi.

Sveinn er Eskfirðingur, alnafni afa síns heitins sem stofnaði ferðaþjónustufyrirtækið Tanna Travel fyrir tæpum 30 árum. Foreldrar Sveins reka nú Tanna Travel.

Sveinn segist lengi hafa haft áhuga á viðskiptum og hafi prófað að standa í eigin rekstri, t.d. að þrífa bíla fyrir fólk. Síðastliðið sumar segist hann hafa starfað sem aðstoðarmaður í eldhúsi á hjúkrunarheimili á Eskifirði, sem hafi verið mjög þroskandi og lærdómsríkt, og einnig hafi hann starfað sem þjónn á veitingastað á Eskifirði. Sveinn segist hafa velt fyrir sér öðrum möguleikum með nám í framhaldsskóla en að lokum hafi það orðið hans niðurstaða að skrá sig á sérhæfða viðskipta- og hagfræðibraut. Því hafi VMA orðið fyrir valinu - og hann sjái ekki eftir því.

„Ég hef mikla ánægju af náminu, það snertir margt sem tengist fyrirtækjum og viðskiptum, t.d. markaðsfræði, stjórnun, bókfærsla. Það er engin spurning að ég valdi rétt að fara í þetta nám,“ segir Sveinn og bætti við að það hafi sannarlega ýtt undir þá ákvörðun að fara til Akureyrar að hér hafi hann tækifæri til þess að æfa hnefaleika hjá Íþróttafélaginu Þór.

Það var nefnilega svo að kóvidfaraldurinn gerði það að verkum að Sveinn heillaðist af hnefaleikum og síðan hefur hann ekki horft um öxl. Samkomutakmarkanir gerðu það að verkum að á Eskifirði þurfti að loka líkamsræktinni, eins og annars staðar á landinu, og þar hafði Sveinn verið fastagestur. Hann og félagar hans fengu þá rými í kjallara íþróttahússins á staðnum til þess að hreyfa sig og þar prófuðu þeir sig áfram með boxið. Sveinn heillaðist af íþróttinni og ekki varð aftur snúið. Daði Ástþórsson, sem þá var þjálfari hjá hnefaleikadeild Þórs á Akureyri, lagði honum línurnar með fjarþjálfun og þegar Sveinn síðan kom til Akureyrar haustið 2021 til þess að hefja nám í VMA lá leiðin að sjálfsögðu einnig á hnefaleikaæfingar hjá Þór. „Ég féll alveg fyrir þessari íþrótt, það er hálfgerð hugleiðsla hjá mér og afslöppun í því fólgin að fara á æfingar. Ég æfi 5-6 sinnum í viku og keppi í miðvigt, 75 kílóa flokki, m.a. keppti ég í Danmörku í október sl. Ég passa mataræðið vel, tek vítamín og hugsa vel um að líkaminn fá líka hvíld,“ segir Sveinn. Hann segir að hnefaleikarnir séu vissulega harðgerð íþrótt, eins og hann orðar það, en hún sé ekki hættuleg ef öllum reglum sé fylgt. „Ég mergsýg allar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem ég get orðið mér út um til þess að verða betri í hnefaleikunum. Ég nýt þess einnig að vera í annarri hreyfingu, hleyp til dæmis til þess að byggja upp þol, hef gaman af klettaklifri o.fl. Það má alveg segja að þetta sé ákveðinn lífsstíll.“

Þrátt fyrir að mikið sé að gera í bæði náminu og hnefaleikunum gefur Sveinn sér tíma til þess að sinna félagslífinuí VMA. Hann situr í stjórn nemendafélagsins Þórdunu og þar er auðvitað líka í mörg horn að líta, mest þó í kringum viðburði sem Þórduna sér um – og þeir hafa verið ótal margir í vetur. Í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA tók Sveinn þátt og söng með glæsibrag lag Kaleo, Skinny. Hann segist vera með breiðan tónlistarsmekk, sé hálfgerð alæta á tónlist. Hann segist hafa komið fram í söngatriðum í grunnskólanum á Eskifirði en ekki gert að öðru leyti mikið af því að syngja. Að taka þátt í Sturtuhausnum hafi verið skemmtileg reynsla. „Ég kann best við mig þegar ég hef mikið að gera,“ segir Sveinn og bætir við að eins og staðan er núna horfi hann til þess að fara til útlanda að loknu stúdentsprófi frá VMA og feta sig lengra á braut hnefaleikanna.