Fara í efni

Ákvörðun sem við sjáum ekki eftir

Anna Berglind í fjallaskokki á Spáni.
Anna Berglind í fjallaskokki á Spáni.

Síðastliðinn vetur lét Anna Berglind Pálmadóttir enskukennari við VMA þann draum rætast, sem hafði lengi bærst í hjarta hennar og eiginmanns hennar, Helga Rúnars Pálssonar framleiðslustjóra hjá Kjarnafæði, að breyta til og flytja með fjölskylduna til útlanda. Út fóru þau hjónin síðla sumars 2016 með börnin sín þrjú og fótuðu sig á nýjum slóðum í bænum Denia á Spáni sem er mitt á milli Alicante og Valencia. Þau voru úti í tíu mánuði og komu aftur heim sl. sumar.

„Við höfðum lengi talað um að taka okkur upp og dvelja erlendis um tíma og raunar hafði ég sótt um í grænakorts lotteríinu til að fara til Bandaríkjanna en fékk ekki. Ég þekkti svolítið til í Bandaríkjunum síðan ég var þar skiptinemi á mínum yngri árum og því kom til greina að fara þangað. En við höfðum líka nokkrum sinnum farið í frí til Tenerife og kunnum því vel og það kom til greina að fara þangað. En niðurstaða okkar var sú að fara á meginlandið, því þar væru m.a. meiri möguleikar á að ferðast og sjá okkur um. Við tókum endanlega ákvörðun um að fara út fyrir jólin 2015 og fyrri hluta árs 2016 undirbjuggum við ferðina. Vissulega þurfti margt að skipuleggja vel enda vorum við með börn á þremur skólastigum – 5, 8 og 16 ára.
Denia er strandbær rétt norðan við Benidorm og þar búa allt árið á bilinu 40-50 manns. Við leigðum okkur íbúð þarna úti og sömuleiðis leigðum við út fasteign okkar hér á Akureyri í þá mánuði sem við vorum úti. Við leigðum íbúðina í Denia frá 1. september 2016 til 1. júlí sl. sumar. Skemmst er frá því að segja að okkur líkaði gríðarlega vel þarna úti og ég hefði alveg getað hugsað mér að vera þarna lengur. Hins vegar höfðum við skuldbindingar gagnvart okkar vinnuveitendum hér á Akureyri og við þær þurftum við að sjálfsögðu að standa og auk þess vildi unglingurinn fara í framhaldsskóla hér. Okkur líkaði raunar svo vel þarna úti að við festum kaup á íbúð í bænum áður en við fórum heim og því horfum við til þess að dvelja þarna frekar í fríum. Þetta er á margan hátt draumastaður, passlega stór strandbær með alla nauðsynlega þjónustu. Úr íbúðinni sem við festum kaup á eru um 100 metrar niður á strönd og um 2 kílómetrar að fjallsrótum. Það er gríðarlega gaman að hlaupa þarna og hjóla,“ segir Anna Berglind.

Hlauparinn Anna Berglind
„Fyrst og fremst rak ævintýraþráin okkur út í þetta og að kúpla okkur út úr hinu daglega amstri. Við vildum líka hafa meiri tíma til þess að æfa hlaup og eiga fleiri samverustundir með fjölskyldunni. Einnig var tilgangurinn sá að læra spænsku. Allt gekk þetta vel eftir að því undanskildu að ég gat ekki æft hlaup fyrr en eftir áramót. Ég fór út meidd á hné og var hreinlega bannað að skokka fyrr en eftir áramót,“ segir Anna Berglind en hún hefur heldur betur látið að sér kveða í langhlaupum síðan hún hóf að hlaupa fyrir um þremur árum. Og Helgi Rúnar smitaðist af hlaupaáhuga eiginkonunnar og saman hafa þau æft síðustu tvö árin. „Það er mjög skemmtileg hlaupamenning þarna úti og gaman að vera hluti af henni. Ég hafði ætlað mér að taka fjallamaraþon upp í um 2.500 metra hæð á þessu svæði og það gerði ég síðan fyrr í þessum mánuði. Hlaupið gekk vonum framar og fyrstu fimmtán til tuttugu kílómetrana var ég í forystu í kvennaflokki en síðan gerði stórgrýtt undirlagið mér svolítið erfitt fyrir og ég endaði í fimmta sæti í kvennaflokki sem ég er mjög sátt við enda undir þeim tímamörkum sem ég hafði sett mér.“
Anna Berglind tók sér ekki alveg hlé frá kennslunni sl. vetur því hún kenndi fjarnemendum við VMA. Helgi Rúnar tók sér hins vegar frí frá sínu starfi.
„Að fara þarna út er eitthvað sem við sjáum alls ekki eftir, sannast sagna teljum við að sú ákvörðun hafi verið sú besta sem við höfum tekið. Auðvitað þurftum við að gera óteljandi hluti og ganga frá allskyns pappírum en það var þegar upp var staðið vel þess virði.“