Fara í efni

Áhugaverður þriðjudagsfyrirlestur um lífið í norðurhéruðum Kanada

Natalie Lavoie.
Natalie Lavoie.

Kanadíska myndlistarkonan Nathalie Lavoie verður með þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu í dag kl. 17. Yfirskrift fyrirlestursins er Skýli / Shelter og er hann í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur í Ketilhúsinu, sem eru samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Aðgangur er ókeypis.

Natalie Lavoie býr í Fort Simpson, um 1200 manna, afskekktu samfélagi við Mackenziefljótið í norðvesturhéruðum Kanada – norður af fylkjunum Alberta og Bresku Kólumbíu.

Listsköpun Natalie markast af búsetu hennar á norðurslóðum og hinum langa vetri sem fólk á þessum slóðum býr við. Í fyrirlestrinum segir Natalie frá lífinu í norðurhéruðum Kanada og tengir frásögnina við hugmyndir um neyðarviðbrögð og notar samlíkingu við neyðarskýli eins og þau eru þekkt á Íslandi.