Fara í efni

Áhugaverður fyrirlestur um nýtt fiskiðjuver Samherja á Dalvík

Fyrirlestur Birkis og Atla var afar fjölsóttur.
Fyrirlestur Birkis og Atla var afar fjölsóttur.

Birkir Baldvinsson og Atli Dagsson frá Samherja fluttu afar áhugaverðan fyrirlestur í gær í VMA fyrir nemendur og kennara nokkurra verknámsbrauta skólans. Þeir sögðu frá hinu nýja fiskiðjuveri sem Samherji er nú að byggja á hafnarsvæðinu á Dalvík og leysir af hólmi eldra hús þar sem Samherji hefur verið með fiskvinnslu til fjölda ára og þar áður Kaupfélag Eyfirðinga.

Af fyrirlestri Birkis og Atla má ráða að hér er um gríðarlega stórt verkefni að ræða sem í senn er metnaðarfullt og framsækið og án þess að það hafi komið fram í fyrirlestrinum má álykta sem svo að hið nýja fiskiðjuver verði í allra fremstu röð fiskiðjuvera fyrir bolfiskvinnslu í heiminum. Heildarkostnaður er áætlaður á bilinu fjórir til fjórir og hálfur milljarður króna.

Samherji er með tvö fiskvinnsluhús við Eyjafjörð – ÚA á Akureyri og vinnsluna á Dalvík. Það er af sem áður var þegar útgerð frystiskipa var hryggjarstykkið í útgerð Samherja, núna er áherslan á útgerð ísfiskskipa og að flytja ferskan fisk á erlenda markaði. Stærstu markaðir í Evrópu eru í Frakklandi, Bretlandi og Belgíu og Ameríkumarkaður er einnig drjúgt stór. Samherji hefur á undanförnum árum tekið í notkun þrjá nýja ísfisktogara og tveir til viðbótar eru væntanlegir.

Samherji hefur á undanförnum árum endurnýjað og stækkað vinnsluna á Akureyri. Þannig var byggð 2.500 fermetra viðbygging við vinnsluna á Akureyri árið 2015 og nam sú fjárfesting um átján hundruð milljónum króna. Á síðasta ári var fjárfest í ÚA fyrir um milljarð þegar bætt var við þremur snyrtilínum, tveimur vatnsskurðarvélum og þremur bitaflokkurum.

Fyrir um þremur árum var síðan farið að huga að byggingu nýs fiskiðjuvers á Dalvík og það verkefni er nú komið í fullan gang og stór hluti byggingarinnar er þessa dagana kominn undir þak. Húsið er á hafnarsvæðinu á Dalvík og er heimilisfangið Sjávarbraut 2. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær vinnslan verður tekin formlega í notkun en það mun að óbreyttu gerast á næsta ári. Stefnt er að því að flestar vélar verði komnar á sinn stað fyrir lok þessa árs.

Hið nýja fiskiðjuver er á einni hæð í stað þriggja í núverandi vinnsluhúsi. Þetta verður byltingarkennd breyting, unnt verður að bæta meðhöndlun aflans, fjórar vinnslulínur verða í húsinu, sjálfvirk pökkun, aukin afköst, betri aðbúnaður starfsfólks og störfin verða á allan hátt léttari. Þeir Birkir og Atli lögðu á það áherslu að sjálfvirknivæðing nútímans kallaði á annars konar og hentugra húsnæði og því hefði verið ráðist í þessar framkvæmdir. Margt hafi þurft að hafa í huga við hönnun hússins, menn hafi þurft að horfa bæði til þess hvernig tækni dagsins væri og hvaða tækninýjunga væri að vænta. Horfa þyrfti til framtíðar við svo stóra framkvæmd.

Húsið er 1213 m langt og 55 m breitt, 9300 fermetrar að grunnfleti. Í bygginguna fara um 650 tonn af stáli, hljóðeinangrun hússins fæst með svokölluðum hljóðísogsplötum. Sprinkler kerfi hússins er 4.550 lítrar/mínútu, snjóbræðslulagnir eru samtals um 16 km, heildarstærð frystikerfisins er 2.500 kW – um er að ræða  ammoníakskerfi, lágþrep og miliþrep.

Allir hlutir í húsinu verða merktir svk. RDS kerfi – Reference Designation Systems – húsið og öll rými, allt vinnslurými, frystikerfi og öll húskerfi.

Ætlunin er að vinna í húsinu frá kl. 08:00 til 16:00 virka daga. Miðað er við að í gegnum vinnsluna fari 10-12 tonn af hráefni á klukkustund.