Fara í efni

Áhugaverður fyrirlestur um fyrsta Svansvottaða íbúðarhúsið á Íslandi

Fjölmargir sóttu fyrirlestur Finns í VMA í gær.
Fjölmargir sóttu fyrirlestur Finns í VMA í gær.

Finnur Sveinsson, umhverfis- og viðskiptafræðingur, flutti afar áhugaverðan fyrirlestur í VMA í gær um fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið á Íslandi sem hann og eiginkona hans, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, byggðu og fluttu inn í fyrir réttum tveimur árum, í nóvember 2017. Síðan hefur Finnur haldið um eitthundrað fyrirlestra um byggingu hússins þar sem hann dregur fram ýmis atriði sem gera húsið öðruvísi en önnur hús. Fyrir fyrirlestrinum stóð byggingadeild VMA í samstarfi við Byko.

Finnur lýsti því að hugmyndin að húsinu hafi fyrst skotið upp kollinum hjá þeim hjónum fyrir hálfum öðrum áratug þegar þau bjuggu í Svíþjóð, sjálfur hafi hann starfað árum saman við ráðgjöf í umhverfismálum og því hafi málið verið þeim skylt. Þau fluttu til Íslands árið 2007 og bygging vistvæns húss lét þau ekki í friði og hugmyndin varð loks að veruleika. Þau fengu lóð fyrir húsið á Urriðaholti, innan bæjarmarka Garðabæjar, og hófust handa árið 2015. Finnur sagði að með byggingu hússins hafi þau viljað sýna fram á það væri vel unnt að byggja umhverfisvænt hús á Íslandi. Rétt sé að hafa í huga í þessu sambandi að byggingariðnaðurinn standi fyrir 40-50% kolefnisspors í heiminum og því sé til mikils að vinna að huga meira að þessum málum og lækka þessa tölu. Sóun á mat sé mikil en hún sé einnig mikil í byggingariðnaði.

Finnur upplýsti að fermetrinn í húsinu hafi kostað 500 þúsund krónur. Um sé að ræða hönnunarhús með ýmsar lausnir sem hafi ekki allar verið ódýrar og nefnir hann í því sambandi bogavegg.  „Ef þið eruð að fara að byggja hús,“ sagði hann brosandi við þéttsetinn salinn í VMA, „hafið þá ekki bogavegg í því.“ Finnur sagði ekki flóknara að byggja vistvænt hús en það þurfi aðra hugsun og aðra nálgun á hlutina. Í því sambandi nefndi hann mikla áherslu á orkunýtingu. Þar þurfi m.a. að horfa til einangrunar hússins en það er allt einangrað að utan. Orkunotkunin í húsinu er 121 kwh á fermetra samanborið við 240 kwh að meðaltali á Íslandi. Í Norður-Svíþjóð er orkunotkunin að meðaltali um 110 kwh sem kemur til af betri einangrun, að sögn Finns, og einnig nefnir hann betri loftræstingu. Í húsi sínu hafa Finnur og Þórdís Jóna loftskiptikerfi sem hann segir að virki mjög vel og spari orku umtalsvert. Uppkomið hafi slíkt kerfi kostað um 1,7 milljónir króna. Finnur nefndi einnig að horft hafi verið í ríkum mæli til þess að fyrirbyggja rakamyndum og þar með að koma í veg fyrir myglu. Hann sagði að hver einasta fjöl í húsið hafi verið rakamæld til þess að lágmarka hættuna við rakamyndun.

Frekari upplýsingar um húsið er hér að finna og í Fréttablaðinu í gær, miðvikudaginn 13. nóvember, var viðtal við Finn og Þórdísi Jónu um húsið þeirra.