Fara í efni

Áhangandi Black Sabbath færði skólameistara bol að gjöf

Hjalti Jón, Saga og Sveina Björk með bolinn góða.
Hjalti Jón, Saga og Sveina Björk með bolinn góða.

Saga Snorradóttir, nemandi á textílkjörsviði listnámsbrautar VMA, gekk á dögunum á fund Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara og færði honum að gjöf bol sem hún hafði hannað. Bolinn gerði hún í tveimur eintökum, annan fyrir sig og hinn fyrir skólameistara. Hluti af því sem hún hafði þrykkt á bolinn er úr texta lagsins Planet Caravan með Black Sabbath en Saga segist halda mikið upp á tónlist þeirrar hljómsveitar og almennt tónlist frá þessum tíma.

Allt kom þetta þannig til að Hjalti Jón hafði oft kíkt við á listnámsbraut og haft á orði þegar hann sá nemendur vera að vinna að fjölbreyttri hönnun að erfitt væri að fá íslenska hönnun í karlastærðum. Saga og kennarinn hennar, Sveina Björk Jóhannesdóttir, tóku þá skólameistara á orðinu og úr varð að bolinn góða gerði Saga í tveimur eintökum, sem fyrr segir, annan fyrir sig og hinn fyrir skólameistara.

Saga er á annarri önn á listnámsbraut VMA en áður hafði hún verið á tungumálasviði MA í hálft annað ár. Hún segist kunna náminu afar vel og njóti þess mjög. Hún segir það ekki tilviljun að hún hafi valið hluta úr texta Planet Caravan með Black Sabbath til þess að þrykkja á bolinn því hún haldi mikið upp á tónlist frá þessum tíma. „Nei, ég hugsa reyndar að það sé ekki mjög algengt að krakkar á mínum aldri hlusti á tónlist frá þessum tíma. En ég geri það og hef kynnt mér þessa tónlist mjög vel. Það kom mér satt best að segja svolítið á óvart að kennararnir mínir skyldu ekki þekkja þessa hljómsveit!“ segir Saga sem auk námsins á listnámsbraut stundar nám í Tónlistarskólanum á Akureyri og hefur raunar gert í átta ár eða frá ellefu ára aldri. Þar lærir hún á rafbassa. „Það er rétt að fáar konur læra á rafbassa, einhverra hluta vegna en þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Saga og upplýsir að hún hafi mikinn áhuga á að fara í áframhaldandi tónlistarnám.

Hér er hægt að hlusta á lagið Planet Caravan með Black Sabbath.

Og til fróðleiks skal upplýst að Black Sabbath er rokkhljómsveit sem var stofnuð árið 1968 í Birmingham á Englandi. Hljómsveitin starfaði til 2006 en tók síðan upp þráðinn aftur árið 2011. Í upphaflegu hljómsveitinni voru söngvarinn Ozzy Osboune, gítaristinn og aðal lagahöfundurinn Tony Iommi, bassaleikarinn og aðal textahöfundurinn Geezer Butler og trommarinn Bill Ward. Flestir eru sammála um að Black Sabbath hafi verið frumkvöðlar í svokallaðri „heavy metal“ tónlist. Ozzy Osbourne upplýsti nýlega að snemma á næsta ári myndi hljómsveitin hefja vinnu við tuttugustu og síðustu hljóðversplötu sína og fylgja henni síðan eftir með sinni síðustu tónleikaferðinni. Það verður að koma í ljós hvort það gengur allt eftir.