Fara í efni

Ágúst Örn og Oddrún Inga framhaldsskólameistarar

Framhaldsskólameistararnir Ágúst og Oddrún.
Framhaldsskólameistararnir Ágúst og Oddrún.

Ágúst Örn Víðisson og Oddrún Inga Marteinsdóttir, nemendur í VMA, eru framhaldsskólameistarar í 10 km hlaupi, en auk þess að vera almenningshlaup var keppt til framhaldsskólameistara í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði gær.

Á milli fjörutíu og fimmtíu skokkarar úr VMA, bæði nemendur og kennarar, tóku í gær þátt í 5 og 10 km vegalengdum í Flensborgarhlaupinu í Hafnarfirði.  Þetta er í annað skipti sem hópur úr VMA tekur þátt í hlaupinu en á síðasta ári tóku þátt þrettán nemendur og fjórir starfsmenn VMA. Þessi vaski hópur hlaupara sem tók þátt í Flensborgarhlaupinu í gær fór í gærmorgun suður yfir heiðar og tók þátt í hlaupinu síðdegis. Hópurinn gisti síðan í nótt í Flensborgarskóla og kemur aftur norður í dag.

Auk þess að vera almenningshlaup er Flensborgarhlaupið framhaldsskólahlaup og því voru krýndir framhaldsskólameistarar í 10 km hlaupi. Oddrún Inga Marteinsdóttir, sem keppti í flokki 17 ára og yngri, varð framhaldsskólameistari í kvennaflokki á tímanum 56:26 mín og Ágúst Örn Víðisson sigraði í karlaflokki, en hann keppti í flokki 18 ára og eldri, á tímanum  38:23 mín. Þau kepptu bæði í Flensborgarhlaupinu í fyrra og bættu bæði tíma sína umtalsvert, Oddrún Inga um sem næst sjö mínútur og Ágúst Örn um röskar þrjár mínútur.

Anna Berglind Pálmadóttir, enskukennari í VMA og hlaupari, sigraði 10 km í kvennaflokki, eins og í fyrra, á tímanum 39:17 sem er um einnar mínútu bæting frá því í fyrra.

Auk Önnu Berglindar hlupu tveir VMA-kennarar; Sunna Hlín Jóhannesdóttir hljóp 10 km og Íris Ragnarsdóttir hljóp 5 km. Fjórði kennarinn í þessari hlaupaferð VMA nemenda og kennara er Hilmar Friðjónsson, sem var á myndavélinni og keyrði auk þess rútuna.

Á fimmta hundrað manns tóku þátt í Flensborgarhlaupinu og segir Anna Berglind Pálmadóttir að eftir hafi verið tekið að svo stór hópur kæmi frá Akureyri til þess að taka þátt í hlaupinu. „Okkur var þakkað sérstaklega fyrir þátttökuna og Flensborgarskólinn stefnir að því að endurgjalda þessa heimsókn okkar með því að koma norður í vor þegar við hlaupum VMA/MA hlaupið. Þetta var á allan hátt mjög skemmtilegt,“ segir Anna Berglind.

Hér má sjá öll úrslit í Flensborgarhlaupinu í gær.