Fara í efni

Afrekskrakkar í frjálsíþróttum

Fannar Logi og Stefanía Daney.
Fannar Logi og Stefanía Daney.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir, frjálsíþróttakona úr Eik á Akureyri og nemandi í VMA, er sannkölluð afrekskona í frjálsíþróttum og það undirstrikaði hún enn einu sinni á Íslandsmóti fatlaðra innanhúss í frjálsíþróttum í Reykjavík um liðna helgi. Hún keppti í sex greinum á mótinu - 60, 200, 400 og 800 metra hlaupi, hástökki og langstökki - og sigraði þær allar. Og ekki nóg með það, hún setti Íslandsmet í nokkrum greinum. Þar með er hún handhafi Íslandsmeta í sínum flokki í átta keppnisgreinum; langstökki, hástökki, spjótkasti og 60, 100, 200, 400 og 800 metra hlaupum Hér eru myndir frá Íþróttasambandi fatlaðra af Stefaníu Daneyju á Íslandsmótinu í Reykjavík um síðustu helgi.

Afreksíþróttamaðurinn Jón Margeir Sverrisson, sem hefur heldur betur gert garðinn frægan í sundi, hefur nú fært sig yfir í frjálsíþróttir og er þegar byrjaður að sópa að sér verðlaunum. Jón Margeir, sem er unnusti Stefaníu Daneyjar, setti fjögur Íslandsmet á mótinu, í 200, 400, 800 og 1500 metra hlaupum.

Annar VMA-nemandi, Fannar Logi Jóhannesson, náði líka mjög góðum árangri á Íslandsmóti fatlaðra í frjálsum um liðna helgi. Hann varð annar í 60 metra hlaupi, þriðji í 200 metra hlaupi, þriðji í 400 metra hlaupi, annar í 800 metra hlaupi, annar í 1500 metra hlaupi, annar í hástökki og annar í kúluvarpi. Fannar Logi bætti verulega árangur sinn í öllum greinum sem hann keppti í á mótinu.

Þess má geta að Eik á Akureyri varð Íslandsmeistari félaga á mótinu, vann til 10 gullverðlauna á mótinu, og fékk að launum veglegan farandbikar.

Stefanía Daney og Fannar Logi eru að vonum himinsæl með árangurinn á Íslandsmótinu um síðustu helgi og þakka árangurinn markvissum og þrotlausum æfingum að undanförnu. Síðan hafi þeim liðið mjög vel á sjálfu mótinu og það hafi allt skilað sér í góðum árangri.

Stefanía Daney, sem verður tvítug á þessu ári, lýkur námi sínu í VMA í vor. Hún byrjaði að æfa frjálsíþróttir í desember 2011 og framfarirnar síðan hafa verið ævintýri líkastar. Í vetur hefur Egill Valgeirsson þjálfað hana en hann er þjálfari hjá Eik á Akureyri og sömuleiðis hefur hún notið leiðsagnar ekki ómerkari frjálsíþróttaþjálfara en Gísla Sigurðssonar. Auk hinna venjubundnu æfinga í Boganum segist Stefanía Dagný vera dugleg að fara í styrktarþjálfun í „Ræktinni“ og hún skipti verulega miklu máli. „Árangurinn á Íslandsmótinu kom mér skemmtilega á óvart en ég var vel undirbúin, leið vel í sjálfri keppninni og hitti á góða daga,“ segir Stefanía Daney.

Fannar Logi er á sautjánda aldursári og byrjaði nám sitt í VMA sl. haust. Hann á ekki langan feril að baki í frjálsíþróttum, byrjaði þar í fyrra fyrir áeggjan þjálfarans Egils Valgeirssonar. Og hann segist hreint ekki sjá eftir því að hafa skellt sér í frjálsíþróttir, honum gangi vel og hafi náð miklum framförum og sé þess fullviss að hann eigi mikið inni, enda stutt síðan hann byrjaði að æfa og því eigi hann margt ólært. Auk frjálsíþróttanna æfir Fannar Logi sund hjá Sundfélaginu Óðni.

Sem kunnugt er skiptist tímabil frjálsíþróttamanna í vetrar- og sumartímabil. Á þessum tíma árs er keppt innanhúss en síðan þegar sól hækkar á lofti í vor færast æfingarnar út og utanhúss keppnistímabilið tekur við. Í það minnsta er ljóst að bæði Stefanía Daney og Fannar Logi stefna á Íslandsmót fatlaðra utanhúss sem fer fram fyrstu helgina í júlí á Selfossi. Og síðan er einnig möguleiki á þátttöku í móti erlendis næsta sumar.