Fara í efni

Áfram veginn - samkvæmt nýjustu reglugerð

Tveggja metra reglan í heiðri höfð í málminum.
Tveggja metra reglan í heiðri höfð í málminum.

Eins og fram hefur komið tóku gildi á miðnætti sl. föstudagskvöld hertar sóttvarnareglur vegna fjölgunar Covid-smita á landinu að undanförnu og í kjölfarið gaf heilbrigðisráðuneytið út Reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sem gildir til og með 17. nóvember nk.  Í reglugerðinni segir m.a. um skólastarf í framhaldsskólum:

Skólastarf á framhaldsskólastigi, í lýðskóla og framhaldsfræðslu er heimilt að því tilskildu að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 2 metra fjarlægð sín á milli og fjöldi nemenda og starfsmanna fari aldrei yfir 10 í hverju rými. Í áföngum sem skulu samkvæmt skipulagi brauta vera teknir á fyrsta námsári er heimilt að hafa allt að 25 einstaklinga í rými að því gefnu að unnt sé að halda 2 metra nálægðartakmörkun.

Tveggja metra fjarlægðarmörk og ný viðmið um hámarksfjölda nemenda og starfsmanna í hverju rými kallaði á töluverða uppstokkun frá því skipulagi í skólastarfi í VMA sem gilt hefur síðustu vikur, fyrst og fremst í þeim námsgreinum sem nemendur sóttu áður kennslustundir í skólanum, bæði í bóklegum greinum og verklegum.

Málmiðnaðarbraut VMA er ein þeirra verknámsbrauta þar sem eru margir nemendur. Til þess að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar var brugðið á það ráð að skipta  hópum í tvennt í verklegri kennslu – jafnframt því sem húsnæði brautarinnar er skipt upp í tvö sóttvarnahólf. Hörður Óskarsson brautarstjóri segir þetta heilmikið púsluspil og óhjákvæmilegt sé að með helmingi minni námshópum sé verknámstími hvers nemanda umtalsvert styttri en ella væri. En öllu skipti að fá nemendur í skólann.

Hér má sjá myndir sem Hörður brautarstjóri tók á málmiðnaðarbrautinni í gær. Nemendur voru að vinna á tveimur vígstöðvum, í tveimur sóttvarnahólfum, annars vegar í logsuðu og hins vegar í málmsmíði.