Fara í efni

Styrktar- og afmælistónleikar á morgun í Gryfjunni

Margrét segir stóra drauminn rætast á morgun.
Margrét segir stóra drauminn rætast á morgun.

"Styðjum tónlistarsnillinga framtíðarinnar" er yfirskrift styrktartónleika sem verða haldnir í Gryfjunni í VMA á morgun, laugardaginn 21. maí, kl. 17:00 í tilefni af 70 ára afmæli Margrétar Pétursdóttur, fyrrv. hjúkrunarkennara og skólahjúkrunarfræðings við VMA. Ágóða af tónleikunum vill Margrét nýta í þágu nemenda í VMA sem einnig eru í tónlistarnámi á framhaldsstigi Tónlistarskólans á Akureyri. Listamennirnir sem koma fram á tónleikunum gefa vinnu sína og rennur ágóði af tónleikunum því óskiptur til þessa málefnis.

Margrét, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, á að baki langan og farsælan starfsferil í VMA. Hún kom að sjúkraliðanámi á Akureyri strax árið 1981 og fylgdi því síðan eftir í VMA þegar skólinn hóf starfsemi fyrir rösklega þrjátíu árum. Hún starfaði sem kennari við sjúkraliðabraut skólans og á síðari árum einnig sem skólahjúkrunarfræðingur allt til vors 2012, að einu ári undanskildu.
Á sínum langa starfsferli í VMA segist hún hafa komist að raun um að margir áhugasamir tónlistarnemendur, ekki síst úr öðrum sveitarfélögum, hafi neyðst til þess að hætta tónlistarnámi þegar þeir hófu nám í framhaldsskóla, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekki efni á að halda áfram námi í tónlist, samhliða náminu í VMA.  „Þegar ég heyrði þetta fór ég að velta fyrir mér hvernig væri hægt að breyta þessu og styðja þessa krakka til þess að halda áfram sínu tónlistarnámi. Málið þróaðist smám saman og úr varð að Eyþór Ingi Jónsson, organisti og kórstjóri við Akureyrarkirkju, sem er systursonur Grétars mannsins míns, greip boltann á lofti og  hann hefur unnið að því að fá þetta frábæra listafólk til þess að koma fram á þessum tónleikum í Gryfjunni. Tónleikarnir verða því mín stóra afmælisgjöf og ég væri þakklát ef fólk vildi leggja þessum málstað lið í staðinn fyrir að gefa mér afmælisgjafir,“ segir Margrét. Þeir fjármunir sem safnast á tónleikunum verða lagðir í sjóð á vegum Hollvinasamtaka VMA og úr honum verður þeim  varið til áhugasamra tónlistarnema í VMA.

Margrét segist hafa áhuga á tónlist og hafi ánægju af því að sækja tónleika. Sonur þeirra hjóna, Gísli Jóhann, er raunar starfandi tónlistarmaður og tónskáld í Oslo í Noregi, og Margrét kona hans hefur sönginn að atvinnu.

Margrét Pétursdóttir, sem verður sjötug þann 25. maí nk., segir að með þessum tónleikum rætist hennar stóri draumur með hjálp frábærra tónlistarmanna. Á tónleikunum koma fram Birkir Blær, Elvý Hreinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson, Helena G. Bjarnadóttir, Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir, Hrefna Logadóttir, Kammerkórinn Hymnodia og Matti Saarinen.

Tónleikarnir eru að sjálfsögðu öllum opnir. Enginn aðgangseyrir,  en frjáls framlög til góðs málefnis eru vel þegin. Hraðbanki er á staðum.