Fara í efni

Af hverju að starfa sem myndlistarkona?

Verk eftir Freyju Reynisdóttur.
Verk eftir Freyju Reynisdóttur.

Í dag, þriðjudaginn 29. október, kl. 17-17.40 heldur Freyja Reynisdóttir myndlistarkona fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Boltinn rúllar ef þú ýtir honum. Í fyrirlestrinum, sem er hluti af fyrirleströðinni Þriðjudagsfyrirlestrar, fjallar Freyja um þá ákvörðunartöku að starfa sem myndlistarkona að loknu listnámi og hvert sú ákvörðun hefur leitt hana. Einnig mun hún koma inn á margvísleg málefni eins og skapandi hugsun sem allra handa verkfæri, vinnustofur listamanna, umsjón og stofnun sýningarrýma, listasmiðjur, viðburðarstjórnun, hugarfar, tækifæri, kulnun, brottflutninga, sjálfskoðun og hina eilífu endurkomu til listalífsins á Akureyri.

Freyja Reynisdóttir, sem er fædd 1989, útskrifaðist úr myndlistarnámi árið 2014. Hún hefur unnið og haldið sýningar á Íslandi, Spáni, í Þýskalandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Hún er einn af stofnendum listarýmisins Kaktus á Akureyri og hefur ásamt fleiri listamönnum staðið fyrir tilraunaverkefnum eins og listasmiðjunni Rót, tónlistarhátíðinni Ymur og mannfræðismiðjunni NÚLL.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.