Fara í efni

Af Evrópuverkefnum nemenda VMA

Glaðbeittir Hollandsfarar.
Glaðbeittir Hollandsfarar.

Það var sannarlega mikið um að vera í Evrópuverkefnum nemenda og kennara í VMA í síðasta mánuði. Í síðari hluta mars fóru þrír hópar til þriggja landa til þess að taka þátt í ólíkum verkefnum. Allar tókust þessar heimsóknir mjög vel og voru þátttakendum í senn lærdómsríkar og skemmtilegar.

Electro Technicians for a Green World
Fjórir nemendur og tveir kennarar af rafiðnbraut VMA fóru til í Istanbúl í Tyrklandi um miðjan mars til þess að taka þátt í Erasmus+ Evrópuverkefninu Electro Technicians for a Green World.

Þetta var fyrsta heimsóknin í þessu tveggja ára verkefni sem lýtur m.a. að ýmsum tæknilausnum um orkusparnað og sjálfbærni. Auk VMA taka þátt í því skólarnir Agora Roermond - Stichting Onderwijs Midden Limburg í Hollandi, Institugo de Ensenanza Secundaria Santa Lucía á Kanaríeyjum, Solski Center í Celje í Slóveníu, Budapesti Muszaki Technikum Í Ungverjalandi og Istanbul Teknik Üniversitesi í Tyrklandi. 

Þessar myndir voru teknar í Tyrklandsheimsókninni.

Um miðjan maí nk verður rafiðndeild VMA gestgjafi í verkefninu og tekur þá á móti og skipuleggur dagskrá fyrir fulltrúa hinna þátttökuskólanna.

Ready for the World
Á sama tíma og fulltrúar rafiðndeildar VMA fóru til Istanbúl í Tyrklandi voru fjórtán nemendur og þrír kennarar í Harderwijk í Hollandi og tóku þar þátt í Erasmus+ verkefninu Ready for the World. Í Harderwijk er Morgen College, sem tekur þátt í verkefninu, og þriðji skólinn er Randers Social- og sunhedsskole í samnefndri borg á Jótlandi í Danmörku. Í nóvember á síðasta ári hittust fulltrúar skólanna í Randers í Danmörku og þriðja heimsóknin í verkefninu verður næsta haust, nánar tiltekið í  september 2022, þegar fulltrúar skólanna í Randers og Harderwijk koma til Akureyrar. Þá verður VMA gestgjafi og setur upp dagskrá fyrir fulltrúa skólanna.

Hér eru myndir frá ferð VMA-nemenda og kennara til Harderwijk.

Í Ready for the World er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og skoða nemendur skólanna þriggja frá ólíkum sjónarhornum sín samfélög með það að leiðarljósi að leggja fólki lið á ýmsan hátt. Dregin eru fram sérkenni landanna þriggja í þessum efnum.

Rotten Shark and Aioli
Nemendur og kennarar á matvælabraut VMA fóru til Suður-Frakklands, nánar tiltekið til La Tour-d’Aigues, síðari hluta mars og tóku þar þátt í verkefninu Rotten Shark and Aioli. Þetta er Erasmus+ verkefni sem stóð til að fara í fyrir tveimur árum en kóvid kom í veg fyrir það eins og svo margt annað. En nú var loks komið að því. VMA-nemar í grunndeild matvæla- og ferðamálagreina fóru út og tóku þar þátt í dagskrá sem heimafólk hafði skipulagt. Áherslan í verkefninu er matur úr héraði og það var einmitt það sem Frakkarnir sýndu okkar fólki í heimsókninni út. Íslenskur matur frá ýmsum hliðum verður síðan ofarlega á blaði í heimsókn nemenda og kennara frá Frakklandi í VMA síðustu vikuna í þessum mánuði. Nánar um þá heimsókn síðar.

 Hér eru myndir úr Frakklandsferðinni.