Fara í efni

Æfingin skapar meistarann!

Krista Dís Kristinsdóttir.
Krista Dís Kristinsdóttir.

Krista Dís Kristinsdóttir á Akureyri hefur það skýra markmiðið að ná langt í fótboltanum. Og það er hreint ekki óraunhæft markmið því sextán ára gömul er hún í U-17 landsliði Íslands í knattspyrnu. Lífið þessa dagana og vikurnar snýst mest um nám á íþróttabraut VMA og knattspyrnu.

Krista hóf nám á íþróttabraut VMA sl. haust. Það námsval kom ekki á óvart enda á knattspyrnan hug hennar allan. Það segir sig sjálft að til þess að verða valin í landsliðið þarf mikla ástundun og að leggja alúð við íþróttina. Og það gerir Krista svo sannarlega. Hún hefur nú verið í landsliði Íslands í sínum aldursflokki í um eitt ár og spilað þegar nokkra landsleiki, síðast tók hún þátt með U-17 landsliðinu í æfingamóti í Portúgal þar sem liðið stóð uppi sem sigurvegari, gerði jafntefli við Portúgal og vann Finna og Slóvaka. Næsta landsliðsverkefni er í mars þegar haldið verður til Albaníu og liðið spilar við Albaníu og Luxemborg í undankeppni Evrópumótsins.
Hér er mynd af landsliðinu - Krista Dís er númer 17.


Óneitanlega er það mjög svo athyglisvert að Krista hóf ekki að leika knattspyrnu fyrr en ellefu ára gömul. Á síðari árum hefur verið mun algengara að þeir krakkar sem velja að æfa og spila fótbolta hefji æfingar strax 6 eða 7 ára eða jafnvel fyrr. En það á ekki við um Kristu. Hún hafði ekki spilað fótbolta nema í um fjögur ár þegar hún var valin í landsliðið. Geri aðrir betur!

„Ég byrjaði að æfa fótbolta árið 2017 og þá var ég í fimmta flokki. Ég er uppalin í KA og núna æfi ég með meistaraflokki Þór/KA. Ég hafði prófað ýmislegt í íþróttum en ekki fótbolta. Svo var ég með fjölskyldunni á Spáni og sá þar fótboltaleik og hann kveikti í mér að fara að æfa fótbolta. Og þar með var ekki aftur snúið. Mér finnst alls ekki hafa háð mér að hafa ekki æft fótboltann frá því í yngstu aldursflokkunum, ég held að það hafi bara skilað sér vel að hafa prófað ýmsar aðrar íþróttir og fengið þannig svolítið alhliða þjálfun. Kosturinn við að byrja svona seint í fótboltanum er kannski sá að maður missir ekki áhugann, eins og stundum gerist þegar krakkar byrja ungir að æfa.

Það sem var mikil hvatning fyrir mig var að ég fann að með því að æfa vel bætti ég mig. Ég hef reynt að æfa samviskusamlega og síðan hef ég stundum farið með pabba, sem þekkingar ágætlega til þjálfunar, á aukaæfingar.
Í framhaldinu af hæfileikamótum KSÍ var ég fimmtán ára gömul valin í landsliðið, sem var mjög gaman. Æfingaferðin til Portúgal var fjórða ferðin sem ég fer með landsliðinu.

Ég fékk nokkrar mínútur með meistaraflokki Þór/KA sl. sumar og í Lengjubikarnum um daginn á móti FH var ég í byrjunarliðinu og spilaði fyrri hálfleikinn. Í landsliðinu hef ég verið að spila framliggjandi miðjumann en í Þór/KA hef ég bæði spilað á miðjunni og sem bakvörður.

Þó svo að ég hafi, miðað við marga aðra leikmenn, byrjað seint að æfa fótbolta setti ég mér strax það markmið að komast í landsliðið. Að jafnaði æfum við hjá Þór/KA sex daga vikunnar og auk þess eru stundum aukaæfingar í hádeginu, stundum kemst ég á þær, stundum ekki vegna skólans. Ég er með þéttskipaða stundatöflu núna á vorönn og því þarf ég að vera mjög skipulögð til þess að hlutirnir gangi upp.
Til þess að bæta mig held ég að sé mikilvægt að hugsa út í hvaða styrkleikar maður hefur og á hvaða sviðum maður getur bætt sig. Það er líka mjög mikilvægt að þora að spyrja eldri og reyndari leikmenn og þiggja góð ráð frá þeim. Styrkleikar mínir myndi ég segja að séu tækni, hugarfar, hraði, yfirsýn og sendingar. Það sem ég tel mig geta bætt mig mest í eru skotin – að skjóta á markið. En aðalatriðið er að maður getur alltaf bætt sig á öllum sviðum. Æfingin skapar meistarann!
Það er ekkert launungarmál að eins og staðan er núna stefni ég á atvinnumennsku og það kæmi alveg til greina eftir námið í VMA að skoða að fara í háskólaboltann í Bandaríkjunum,“ segir Krista.