Fara í efni

Aðalsteinn fjallar um Örn Inga í þriðjudagsfyrirlestri

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur.
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur verður með þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri – sal 04 - í dag kl. 17. Yfirskrift fyrirlestursins er „Örn Ingi í minningunni“ og er hann í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur í Ketilhúsinu, sem eru samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins og Myndlistarfélagsins. Aðgangur er ókeypis. Yfirskrift fyrirlestursins vísar til yfirlitssýningar á verkum Arnar Inga Gíslasonar „Lífið er LEIK-fimi“ sem stendur nú yfir í Listasafninu á Akureyri.

Aðalsteinn Ingólfsson fæddist árið 1948. Hann er listfræðimenntaður frá Bretlandi, Ítalíu og Svíþjóð og hefur starfað sem menningarritstjóri á dagblöðum og tímaritum og sem listfræðingur og sýningarstjóri á Kjarvalsstöðum og í Listasafni Íslands og var fyrsti forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. Aðalsteinn hefur skrifað á fjórða tug bóka um íslenska myndlist og myndlistamenn, einnig færeysku listamennina Sámal J. Mikines og Eyðun av Reyni.
Aðalsteinn hefur sett upp á annað hundrað myndlistarsýningar á Íslandi, í Svíþjóð og Kanada og víða haldið fyrirlestra um íslenska myndlist. Hann kennir listfræði við Háskóla Íslands og vinnur að bókaverkefnum og nokkrum öðrum listtengdum verkefnum.