Fara í efni

Útfærsla hugmynda með vatnslitum

Það þarf oft að velta vöngum í vatnslitamálun.
Það þarf oft að velta vöngum í vatnslitamálun.

„Þetta eru vinnusamir krakkar, hér er stíft unnið,“ segir Anna María Guðmann – Amí, kennari við listnáms- og hönnunarbraut, en hún kennir áfangann MYNL3TS10. Í lýsingu á áfanganum kemur fram að nemendur skuli í honum hljóta þjálfun á flestum sviðum er lúta að teikningu og málun, með mismunandi teikni- og málunaraðferðum. Unnið sé með ýmis efni, aðferðir og verkfæri. „Reynt er að auka skilning og dýpka tilfinningu nemandans fyrir samspili lita og forma í myndbyggingu og kynna honum merkingar- og táknfræði í meðferð lita og forma. Myndgreining er samofin náminu í þessum áfanga,“ segir m.a. í áfangalýsingunni.

Þegar litið var inn í kennslustund hjá Amí voru nemendur, sem allir eru komnir vel á veg í listnámi sínu, að glíma við vatnslitina. Þeir gerðu tilraunir með ólík form og mismunandi litasamsetningu. Amí segir lykilatriði að nemendur prófi sig áfram, reki sig á og uppgötvi eitthvað nýtt á leiðinni. Þannig verði þjálfunin í myndsköpuninni best. Um þetta gildi það sama og um svo margt annað að síendurteknar æfingar skipti mestu máli. Hún segir áfangann líka þjálfa nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum, í honum sé farið í svo marga og mismunandi hluti sem nýtist vel í framhaldinu, t.d. litablöndun, hugmyndavinnu, akríl- og vatnslitamálun, uppstillingu og myndgreiningu en í því felst að nemendur velja verk þekktra listamanna eða hönnuða til skoðunar til þess að fá hugmyndir að eigin verkum. Amí segir gaman að sjá hvernig þessi áfangi og þau viðfangsefni sem nemendur glíma við efli þá og búi undir að takast á við framhaldsáfanga og síðan lokaverkefnið sem unnið er á síðustu önninni. „Í þessum áfanga er hver nemandi með skissubók og í hana gerir hann heima sex skissur að eigin vali í hverri viku sem ég fer síðan yfir og met,“ segir Amí.

Það fór ekki á milli mála að nemendur höfðu ánægju af glímunni við vatnslitina. Þeir voru djúpt sokknir í að skapa litlar vatnslitamyndir, prófa sig áfram með mismunandi form og litasamsetningu. Í senn heillandi og skemmtilegt að sjá hvernig fjölbreyttar vatnslitaskissur urðu smám saman til úr penslum nemenda og jafnvel var gripið til tannbursta til þess að skapa stjörnur á himni.