Fara í efni

Að láta draumana rætast

Ugla Snorradóttir. Mynd: Viktoría Sól Birgisdóttir
Ugla Snorradóttir. Mynd: Viktoría Sól Birgisdóttir

Það er alltaf jafn ánægjulegt þegar nemendur láta drauma sína rætast. Það á sannarlega við um Uglu Snorradóttur, stúdent frá VMA fyrir hálfu öðru ári, sem hefur frá unga aldri haft áhuga á förðun. Hún lét drauminn rætast og fór í förðunarnám hjá Reykjavík Makeup School og lauk náminu með stæl, svo ekki sé fastara að orði kveðið, því hún útskrifaðist frá skólanum með 10,0 í lokaeinkunn!

Ugla lauk stúdentsprófi af fjölgreinabraut VMA í desember 2020. „Það var alltaf planið hjá mér að klára stúdentinn fyrst og fara síðan suður í förðunarnám. Ég hef haft áhuga á förðun síðan ég var í grunnskóla og því lá beint við að fara í þetta nám. Ég var í förðunarnáminu á haustönn 2021. Það var skemmtilegt og mér gekk vel en ef ég á að vera hreinskilin kom mér mjög á óvart að fá tíu í lokaeinkunn. En ég vil vanda mig og viðurkenni að ég er með svolitla fullkomunaráráttu, það skiptir mig miklu máli að hlutirnir séu vel gerðir,“ segir Ugla.

Þegar Ugla horfir í baksýnisspegilinn telur hún að eldri systir hennar hafi kveikt áhuga sinn á förðuninni. Hún segist líta á förðun sem ákveðna list, þar sem sköpunin fær útrás. Flottar myndir af módelum byggi á samstarfi förðunarfræðingsins og ljósmyndarans.

Núna starfar Ugla á leikskóla í höfuðborginni og er auk þess gestakennari í Reykjavík Makeup School auk þess sem hún tekur að sér ýmis förðunarverkefni. Á Instragram reikningi Uglu er hægt að fylgjast með nýjustu verkefnum hennar í förðuninni.

Ugla segist ekki hafa ákveðið næstu skref en ef hún bæti við sig þekkingu í förðun þurfi hún að sækja hana út fyrir landsteinana. „Það væri mjög spennandi og ég hef ekki útilokað að gera það. En ég hef líka áhuga á að fara í Tækniskólann eða eitthvert annað og læra gullsmíði. Ég hef aðeins kynnst gullsmíðinni í Halldóri Ólafssyni – Úr og skartgripir á Glerártorgi á Akureyri þar sem ég vann við afgreiðslu í nokkur ár. Mér finnst hún mjög áhugaverð,“ segir Ugla Snorradóttir.