Fara í efni

Með sjómennskuna í blóðinu

Óskar Helgi Ingvason vélstjórnarnemi.
Óskar Helgi Ingvason vélstjórnarnemi.

Óskar Helgi Ingvason er fæddur (1999) og uppalinn í Ólafsfirði þar sem hann fékk sjómennskuna beint í æð og hefur verið á sjónum á sumrin undanfarin ár. Og það er ekki ofsögum sagt að sjómennskan sé genetísk því bæði faðir hans og afi voru lengi til sjós.

Fyrsta framhaldsskólaárið var Óskar í sinni heimabyggð í Menntaskólanum á Tröllaskaga á náttúruvísindabraut en ákvað síðan að fara í vélstjórn, fyrst eitt ár í grunndeild málmiðnaðar og síðan í vélstjórnarfögum. „Veturinn í Ólafsfirði nýttist mér mjög vel sem áfanga í stúdentspróf á vélstjórnarbrautinni hér í VMA,“ segir Óskar. „Það má segja að frá því í tíunda bekk hafi ég horft í þessa átt í námi. Frá þeim tíma hef ég sótt sjóinn á sumrin og ég hef fyrir löngu áttað mig á því að á sjónum vil ég starfa. Tvennt kom til greina, stýrimaðurinn eða vélstjóri. Starfsmöguleikarnir eftir sjómennsku eru umtalsvert meiri í vélstjórninni og það réð nokkru um að ég ákvað að fara þessa leið. Ég hafði ekkert óskaplega mikinn áhuga á vélum þegar ég kom hingað en hann hefur aukist eftir því sem lengra hefur liðið á námið og maður skilur betur hvernig þetta virkar allt. Ég vonast til þess að ljúka C-stigi vélstjórnar í vor – sem er gamla þriðja stigið – og gangi það eftir mun ég þá eiga eftir eitt ár til D-stigs í vélstjórn. Ég reikna því með að ljúka þeim áfanga vorið 2021. En eins og dæmið lítur út núna ætla ég mér einnig að ljúka rafvirkjuninni. Það eru stöðugt auknar kröfur um að vélstjórar búi einnig yfir þeirri þekkingu enda hefur átt sér stað mikil tækniþróun í bæði fiskvinnslu og skipum. Ég vona að ég hafi möguleika á því að fara til sjós eftir að hafa lokið smiðju, það er stefnan í dag,“ segir Óskar.

Námið segir Óskar að sé nokkuð krefjandil „Já, það er það. Maður þarf að standa skil á sínu og vera með puttann á púlsinum. Ég tel að það sé í það minnsta góður grunnur fyrir nám í vélstjórn að hafa verið til sjós, því þannig verður til þekking á því hvernig skip virka. Sjálfur hef ég bara verið á togurum. Ég byrjaði á Mánabergi ÓF, leysti af á Sigurbjörginni ÓF, var síðan á Samherjatogaranum Björgvin en hef síðustu tvö ár verið á Sólbergi ÓF. Ég hef ekkert gert annað á sumrin síðustu fimm ár en að vera til sjós. Ég finn að það á betur við mig að vera í þessari svokölluðu kerfisvinnu, þ.e. að vera út á sjó í mánuð og síðan heima í mánuð, en að vera í vinnu í landi frá átta til fimm,“ segir Óskar.

Þegar kíkt var inn á málmiðnaðarbrautina á dögunum var Óskar og fleiri vélstjórnarnemar í verklegri kennslu í málmsuðu hjá Kristjáni Kristinssyni.

„Með suðuáföngunum í grunndeild tökum við fimm áfanga og inn í þeirri tölu er lagnatækni sem að hluta er verklegur og að hluta bóklegur. Í grunndeild tökum við tvo suðuáfanga, logsuðu og hlífðargassuðu, í vélstjórninni tökum við tvo suðuáfanga til viðbótar og fimmti áfanginn er lagnatæknin þar sem við erum annars vegar í þessum verklega hluta og einnig í ýmsum útreikningum á rörum og fáum kynningu á hitaveitum og öðru slíku,“ segir Óskar.