Fara í efni

Að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn

Berglind Anna Erlendsdóttir.
Berglind Anna Erlendsdóttir.

„Þetta verk er fantasía um hvernig ég sé minn þægindastað í ímyndunaraflinu. Það var heilmikið ferli að vinna verkið. Ég held að engir tveir fari sömu leið að því að vinna svona verk. Ég gaf mér góðan tíma til þess að skissa og pæla áður en ég byrjaði að mála. Eftir að ég byrjaði tók verkið miklum breytingum frá upphaflegu hugmyndinni,“ segir Berglind Anna Erlendsdóttir, nemandi á listnáms- og hönnunarbraut VMA, um akrílverk sem hún málaði í akrílmálunaráfanga hjá Björgu Eiríksdóttur á haustönn.

Berglind Anna er Akureyringur en rætur hennar í föðurætt eru í Grímsey. Hún segist því vera hálfur Akureyringur og hálfur Grímseyingur. Hún segist raunar vera fædd á Ísafirði og hafi tekið fyrstu skrefin vestur á Flateyri en flutti síðan með foreldrum sínum til Akureyrar.

Námið í VMA hóf Berglind haustið 2019 og hefur því náð „einni kóvídfrírri önn“, eins og hún orðar það. Hún segist ekki neita því að hún sé, eins og margir aðrir, haldin kóvidþreytu. „Ég væri alveg til í að þetta fari að stoppa,“ segir hún.

Upphaflega horfði Berglind til þess að fara í húsasmíði en úr varð að hún fór í listnám og stefnir að því að ljúka faggreinum listnáms- og hönnunarbrautar í vor. Þá segir hún að taki við að ljúka bóklegum greinum til stúdentsprófs og eftir það segist Berglind hafa áhuga á því að skipta alveg um gír og fara í sjúkraliðanám. „Mig langar til þess að hjálpa öðrum, áhugi minn í þá átt kviknaði eftir að gömul frænka mín greindist með alzheimers og í kjölfarið fór hún inn á hjúkrunarstofnun. Þetta ferli hafði mikil áhrif á mig og hjá mér vaknaði löngun til þess að leggja öðrum lið. Ég hef verið að kynna mér sjúkraliðanámið hér í VMA og horfi til þess að fara í það í framhaldinu og kannski áfram í frekara nám í heilbrigðisvísindum í HA eða HÍ,“ segir Berglind.