Fara í efni

Að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn

Loki Hilmarsson við mynd sína í húsakynnum VMA - á vegg gegnt austurinngangi skólans. Verkið er stór…
Loki Hilmarsson við mynd sína í húsakynnum VMA - á vegg gegnt austurinngangi skólans. Verkið er stórt - 190x150 cm.

Oft er best að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og spinna af fingrum fram, láta hlutina þróast og mótast. Þannig var það með myndina sem nú prýðir vegginn gegnt austurinngangi skólans og hér gefur að líta. Myndina vann Loki Hilmarsson með blandaðri tækni. Og blönduð er hún sannarlega því í myndinni má sjá myndfleti sem hafa verið mótaðir með akrílmálningu, klippimyndum, taui, striga og ýmsu öðru. Verkið er nafnlaust en í því horfir Loki til baka og kallar fram ýmsar minningar úr fortíðinni og einnig er staldrað við í núinu og dregið fram eitt og annað kunnuglegt.

Loki er Akureyringur. Hann hóf nám á listnáms- og hönnunarbraut á kóvidárinu 2021 og stefnir á brautskráningu í desember á þessu ári. Eiginlega var bara tvennt sem kom til greina, listnámið eða bifvélavirkjun. Óneitanlega nokkuð ólíkar greinar en endurspegla þó áhugamál Loka. Hann hafði yndi af teikningu og listsköpun í æsku en fékk einnig snemma beint í æð frá föður sínum ómældan áhuga á bílum. Ekki síst uppgerð gamalla bíla. Tvo bíla af eldri gerðinni á Loki í dag og eyðir ófáum klukkutímunum í að gera þá upp. Og núna er hann með öðrum að fást við uppgerð á Mözdu 626 árg. 1987. Þessa bíltegund segir Loki vera í útrýmingarhættu á Íslandi, raunar séu bara tveir eftir á landinu. Því sé til mikils að vinna að gera Mözduna upp og varðveita.

Listsköpun og bílar eru sem sagt áhugamálin og meira að segja hefur Loki einu sinni sýnt verk sín opinberlega, mestmegnis skúlptúra, það gerði hann sl. sumar í Rósenborg á Akureyri. Logi segist vera ánægður með listnámið í VMA, það sé sveigjanlegt og henti honum vel og kennarnir séu afbragðs góðir.