Fara í efni

Áætlað að frumsýna Lísu 5. mars - miðasala hafin

Þrátt fyrir allar þær takmarkanir sem kóvidfaraldurinn hefur í för með sér lætur Leikfélag VMA ekki slá sig út af laginu og heldur sínu striki með æfingar á uppfærslu vetrarins, Lísu í Undralandi. Æfingar hófust í nóvember en síðan var hlé á þeim í desember og fram í janúar. Nú hefur þráðurinn verið tekinn upp að nýju og leikhópurinn kemur saman til æfinga í Gryfjunni alla virka daga síðdegis – frá 16.30 til 20.30.

Sindri Swan leikstjóri sýningarinnar segir að æfingarnar hafi gengið prýðilega, þrátt fyrir að aðstæðurnar séu eins og þær eru með öllum gildandi takmörkunum. Leikhópurinn hafi reynsluna af sambærilegu ástandi fyrir ári síðan og sé vel meðvitaður um þær leikreglur sem gilda í kóvidfaraldri með grímunotkun, fjarlægð og fleira. Sindri Swan segir að vissulega sé ekki óskastaða að leikarar þurfi að vera með grímur á æfingum en við þessu sé ekkert að gera, vinna þurfi hlutina eins og árferðið bjóði upp á.

Þrátt fyrir allt segir Sindri að æfingaplanið sé því sem næst á áætlun en þegar ákveðið hafi verið að fresta skólabyrjun í upphafi vorannar hafi jafnframt verið ákveðið að færa frumsýninguna aftur um eina viku. Nú sé stefnan tekin á frumsýningu á Lísu í Undralandi í Gryfjunni þann 5. mars nk. Miðasala er nú þegar hafin á heimasíðu Þórdunu á fyrstu tvær sýningarnar 5. og 6. mars. Þá er vert að fylgjast með Instagramreikningi og fb.síðu Leikfélags VMA.

Í Lísu í Undralandi stíga þrettán leikarar á svið í sextán hlutverkum. Sýningin verður fjölbreytt og litskrúðug með dönsum og tónlist. Ákveðið var að fresta dansæfingunum þar til í byrjun febrúar, þegar ný reglugerð um sóttvarnir tekur gildi. Eva Reykjalín verður Sindra til aðstoðar með dansæfingarnar en að söngþjálfuninni kemur Embla Björk Hróadóttir, formaður Leikfélags VMA og sigurvegari í Sturtuhausnum 2021, sem fram fór í nóvember sl.

„Mér finnst þetta hafa gengið ljómandi vel og leikhópurinn hefur lagt hart að sér. Hluti hans býr að því að hafa æft Grease á síðasta ári í sambærilegu árferði. Krakkarnir láta ekki þetta ástand slá sig út af laginu,“ segir Sindri Swan.