Fara í efni

Á Vörumessu 2023 í Smáralind

Þrír af fimm í áhöfn fyrirtækisins Cremé.
Þrír af fimm í áhöfn fyrirtækisins Cremé.

Fyrirtækasmiðja ungra frumkvöðla - Vörumessa 2023 verður haldin í verslanamiðstöðinni Smáralind í Kópavogi á morgun, 24. mars og nk. laugardag, 25. mars. Nemendur í áfanga í frumkvöðlafræði í VMA hjá Hilmar Friðjónssyni kennara taka þátt í Vörumessunni í ár og kynna þar þrjú fyrirtæki og vörur þeirra. Nemendur munu síðan fylgja þátttökunni í Vörumessunni í Smárind eftir með því að kynna framleiðsluvörur sínar á Glerártorgi á Akureyri fimmtudaginn 30. mars nk.

Nemendur í frumkvöðlafræði á viðskipta- og hagfæðibraut VMA hafa lengi tekið þátt í fyrirtækjamessum Ungra frumkvöðla og svo verður einnig nú. Núna á vörönn hafa nemendur Hilmars lagt höfuðið í bleyti og útkoman er stofnun þriggja fyrirtækja. Afurð eins þeirra er sérstakt súkkulaði, annað fyrirtækið framleiðir mjólkurbúðing og það þriðja orkudrykk. Hluti nemenda sem hafa unnið að þessum verkefnum á önninni fara suður með Hilmari á morgun og fyrirtækjakynningin verður síðan á laugardaginn. 

En hver eru fyrirtækin þrjú?

Sveinn Sigurbjörnsson er talsmaður fyrirtækisins Klarus sem framleiðir súkkulaðibita og þeir eru síðan mótaðir með laserskurði í Fab Lab með útlínum þekktra einstaklinga. Klarus er latína og þýðir frægur. Í hópnum sem stendur að Klarus eru sex nemendur.
Sveinn segir áfangann í frumkvöðlafræði í senn fræðandi og gefandi. Mjög gaman sé að sjá hugmynd verða að veruleika og framkvæma hana síðan. Margt þurfi að gera til þess að hlutirnir gangi upp og ótal mistök séu gerð á leiðinni, sem sé lærdómsríkt að takast á við. Sveinn orðar það svo að frumkvöðlafræðin gangi út á að hugsa út fyrir kassann og leita lausna á þeim vandamálum sem upp koma. Eitt sé að upphugsa vöruna, annað sé að framleiða hana og þriðja stigið sé markaðssetningin og salan. Inn í þetta komi m.a. hönnun, kynningarmál, áætlanagerð, fjármögnun o.fl. 

Annar sex nemenda hópur setti á stofn fyrirtæki um sölu á orkudrykk sem þeir hafa ákveðið að kalla Moon. Elvar Snær Erlendsson, talsmaður Moon, segir mikinn markað fyrir orkudrykki en þegar málin hafi verið skoðuð hafi komið í ljós að enginn orkudrykkur á markaðnum væri akureyrskur. Því hafi verið ákveðið að slá til. Þau hafi þróað uppskriftina að drykknum og í honum séu m.a. sætuefni og koffín. Við framleiðsluna sé fyrirtækið í samstarfi um átöppun við Vífilfell á Akureyri.
Elvar Snær segir að margt þurfi að ganga upp til þess að gera orkudrykk að söluvænni vöru. Ekki sé nóg að drykkurinn sjálfur sé góður og kitli bragðlaukana, útlit umbúðanna (dósanna) verði einnig að vera söluvænlegt.
Elvar segir þetta ferli hafa verið mjög skemmtilegt og fróðlegt í hvívetna. Frumkvöðlafræði sé í eðli sínu heilmikil rússíbanareið frá því að hugmynd að vöru liggi fyrir og þar til varan sé tilbúin til sölu.

Þriðja fyrirtækið er um framleiðslu og sölu á mjólkurbúðingi sem kallaður hefur verið Cremé. Að þessu fyrirtæki standa fimm nemendur. Tjörvi Leó Helgason talsmaður Cremé segir að fyrirtækið sé í samstarfi við Kristjánsbakarí um umbúðir fyrir búðinginn en hann er nýjung á markaði hér. Uppskriftin á rætur að rekja til Filippseyja en einn nemendanna fimm á rætur þar og hefur próað þarlenda útgáfu af búðingnum. Hráefnið í honum er m.a. mjólk, vanilludropar, karamellur, eggjarauður o.fl.

Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson tók af undirbúningi þátttöku í Vörumessunni í Smáralind.