Fara í efni

Á vit ævintýranna á Spáni

Anna Berglind Pálmadóttir, enskukennari.
Anna Berglind Pálmadóttir, enskukennari.

Ekki eru mörg ár síðan Anna Berglind Pálmadóttir, enskukennari við VMA, hóf að æfa markvisst langhlaup. Hún hafði lengi haldið sér í form, eins og gengur og gerist, en ekki lagt alúð við hlaupaæfingar. Fljótlega eftir að hún hóf markvissar hlaupaæfingar sumarið 2014 kom í ljós að miklir hæfileikar voru til staðar og frábær árangur náðist og í fyrra var hún komin í æfingahóp Frjálsíþróttasambandsins. Meiðsli hafa verið að hrjá Önnu Berglindi töluvert í vetur en hún væntir þess að ná sér fljótlega af þeim og á komandi sumri hefur hún og eiginmaður hennar, Helgi Rúnar Pálsson, framleiðslustjóri Kjarnafæðis, skráð sig í bæði Laugavegshlaupið svokallaða og heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu seinnipart ágúst. Í september fara þau hjónin og þrjú börn þeirra – 15 ára, 8 ára og 4 ára - síðan á vit nýrra ævintýra og ætla að dvelja næsta vetur á Spáni. Anna Berglind hefur fengið leyfi frá kennslustörfum í VMA næsta skólaár hvað dagskólann varðar en hún mun eftir sem áður kenna ensku í fjarnámi VMA næsta vetur.  

„Við fjölskyldan höfum velt vöngum yfir því í nokkur ár að taka það skref að dvelja eitt ár erlendis og við teljum að þetta sé góður tímapunktur. Við horfðum lengi til Bandaríkjanna en niðurstaðan var sú að fara til Spánar. Við erum ekki búin að ganga endanlega frá hvar nákvæmlega við verðum en líklega verður það einhvers staðar á milli Alicante og Valencia. Ég hef lengi ætlað mér að læra spænsku og núna ætlum við að nýta okkur þetta tækifæri til þess. Við hjónin hugsum gott til glóðarinnar að geta hlaupið úti allan veturinn og vonandi náum við að bæta okkur í hlaupunum. Við sjáum fyrir okkur að geta trappað okkur aðeins niður, við hjónin höfum lengi unnið mikið og erum þar að auki með stórt heimili. Við vonumst til þess að geta fjölgað okkar gæðastundum á Spáni og fjölskyldan geti búið til ævintýravetur. Að óbreyttu gerum við síðan ráð fyrir að koma heim aftur í júní á næsta ári,“ segir Anna Berglind.