Fara í efni

Á Shikotan í fimm vikur í sumar

Baldvin Guðmundsson, nemandi í rafvirkjun í VMA.
Baldvin Guðmundsson, nemandi í rafvirkjun í VMA.

“Ég er bara mjög spenntur fyrir þessu. Við erum að fara á framandi slóðir sem verður áhugavert að kynnast, fyrst og fremst lít ég á þetta sem ævintýri. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar mér bauðst að fara,” segir Baldvin Guðmundsson, nemi í rafvirkjun í VMA en hann verður einn af um 40 starfsmönnum Rafeyrar á Akureyri sem munu vinna á næstu vikum og mánuðum á Shikotan eyju í Kuril eyjaklasanum suður af Shakalin-eyju, sem er austur af Rússlandi. Shikotan er ekki nema 225 ferkílómetrar og þar búa samtals um 2.100 manns. Reyndar er eyjan skammt undan ströndum Japans og í gegnum tíðina hafa Japan og Rússland (áður Sovétríkin) löngum bitist um eyjarnar í Kúril eyjaklasanum sem Shikotan tilheyrir. Það vekur mikla furðu að um alla Shikotan eru ryðgaðir skriðdrekar, rétt eins og um væri að ræða útisafn fyrir rússneska skriðdreka. 

Baldvin er ekki eini nemandinn úr VMA sem starfar í sumar þar eystra því sex aðrir nemendur úr rafvirkjun og vélstjórn vinna þar einnig á vegum Rafeyrar. Verkefnið er uppsetning á fullkominni uppsjávarfiskvinnslu, sambærilegri við fiskiðjuver hjá Eskju á Eskifirði og á Suðurey í Færeyjum. Verkefnið er unnið fyrir fyrirtækið Gidrostroy undir hatti Knarr Maritime en auk Rafeyrar tilheyra því Skaginn 3X og Kælismiðjan Frost. Það eru því tvö fyrirtæki af þremur sem að þessu stóra verkefni koma sem hafa sínar höfuðstöðvar á Akureyri.

“Við munum sjá um það sem lýtur að rafmagninu í verksmiðjunni. Við starfsmenn Rafeyrar skiptast á að vinna þarna úti, ég fer til dæmis út 24. júní og verð í fimm vikur en gert er ráð fyrir að unnið verði að þessu fram á haust. Ferðalagið á áfangastað tekur um þrjá daga, fyrst fljúgum við til Helsinki, þaðan til Moskvu og áfram austur til Shakalin. Þaðan tekur síðan við, skilst mér, sólarhrings ferjusigling á áfangastað,” segir Baldvin.

Í febrúar sl. þurfti að byrja að undirbúa ferðina til Shikotan með sprautum – bæði fyrir lifrarbólgu A og B og endurvakningu á barnasprautum gegn stífkrampa, kíghósta og mænusótt. Vegabréfsáritun þarf að sjálfsögðu til þess að ferðast til Rússlands og það tekur sinn tíma. Allt verður að vera klappað og klárt fyrir 24. júní. “Við munum vinna alla daga nema sunnudaga frá kl. sjö á morgnana til sjö á kvöldin. Á sunnudögum verður frí og þá skilst mér að verkkaupinn hyggist hafa ofan fyrir okkur. Ég er spenntur að sjá í hverju það felst,” segir Baldvin og brosir.

Baldvin er 36 ára gamall og því er bróðurpartur skólafélaga hans töluvert mörgum árum yngri. Hann stefnir að því að ljúka náminu í VMA um næstu jól og sveinsprófi snemma á næsta ári. Hann steig sín fyrstu skref á menntabrautinni í VMA fyrir tuttugu árum, árið 1998, og byrjaði þá á félagsfræðibraut. “Ég var alltaf að skipta um brautir í skólanum á þessum tíma og kláraði aldrei neitt. Það var ekki fyrr en árið 2012 sem ég kláraði stúdentinn í frumgreinadeild HR. Ég hef undanfarin þrjú ár unnið hjá tveimur rafiðnfyrirtækjum á Akureyri, síðustu tvö árin hjá Rafeyri. Ég fór í raunfærnimat og fékk metna starfsreynslu mína í náminu sem aftur flýtir leið minni að brautskráningu hér. Ég er því fyrst og fremst núna í bóklegum fögum og hef unnið með náminu. Á þessari önn hefur það raunar verið nær útilokað vegna þess að ég hef verið í tíu áföngum og því þéttskipuð stundaskrá hjá mér. Ég viðurkenni að það var svolítið skrítið að setjast aftur á skólabekk hér eftir langt hlé en mér fannst nauðsynlegt að ljúka náminu og fá réttindi sem rafvirki. Námsferillinn minn hér á árum áður var ansi skrykkjóttur og ég hafði lítinn áhuga á náminu. Annað er upp á teningnum núna. Núna er ég í náminu á allt öðrum forsendum og ég er mjög sáttur við að hafa drifið mig aftur af stað.
Á sínum tíma var ég í einn vetur formaður Þórdunu sem hefði að öllu jöfnu átt að verða mér til tekna. En þegar upp var staðið tapaði ég á formennskunni því ég lagði námið meira og minna til hliðar og féll á önn! Ég hafði lúmskt gaman að því að þegar ég labbaði eftir göngunum hér fyrst eftir að ég kom hingað aftur kallaði ein stelpa í mig og sagðist hafa týnt skólatöskunni, spurði mig hvort ég hefði nokkuð séð hana. Og annar nemandi spurði mig út í netsamband í skólanum. Þau héldu sem sagt að ég væri húsvörður í skólanum en ekki nemandi!”