Fara í efni

Á NEVZA blakmótinu í Danmörku

Þrír nemendur í VMA eru í landsliðum Íslands í blaki undir 17 ára (U17) sem er þessa viku í Ikast í Danmörku til þess að taka þátt í NEVZA blakmótinu.

Nemendurnir og blakarnir eru Antoni Jan Zurawski, Bergsteinn Orri Jónsson og Rakel Hólmgeirsdóttir. Öll eru þau á fyrstu önn í VMA, Antoni er á viðskipta- og hagfræðibraut en Bergsteinn Orri og Rakel á íþrótta- og lýðheilsubraut. Öll æfa þau og keppa með meistaraflokksliðum KA á Akureyri.

Hér eru nöfn þeirra sem skipa U17 landslið Íslands í blaki sem taka þátt í NEVZA í Danmörku.

NEVZA er skammstöfun fyrir Northen European Volleyball Association og því er um að ræða Norður-Evrópumót í blaki fyrir landslið skipuð leikmönnnum undir 17 ára aldri.

Bergsteinn Orri Jónsson segir það hafa verið sér mikið ánægjuefni að vera valinn í landsliðið, á því hafi hann ekki átt von. Hann hefur einungis spilað blak í þrjú ár, var áður m.a. í íshokkí, körfubolta og pílukasti. Í vetur er hann á fullu í blakinu með meistaraflokki KA og er mjög sáttur við byrjun liðsins á keppnistímabilinu. Hann segir valið í landsliðið vera sér mikil hvatning til þess að halda á fullu áfram í blakinu og æfa enn meira.

Síðastliðinn föstudag komu U17 landsliðin saman til æfinga í Reykjavík en síðan var haldið til Danmerkur í gær og þar verða landsliðin, sem fyrr segir, í eldlínunni á NEVZA blakmótinu í þessari viku.