Fara í efni

Á leið á heimsmeistaramótið í bogfimi í Yankton

Anna María Alfreðsdóttir, landsliðskona í bogfimi.
Anna María Alfreðsdóttir, landsliðskona í bogfimi.

Anna María Alfreðsdóttir, nemandi á fjölgreinabraut VMA, fer um helgina til Yankton í Suður-Dakota í Bandaríkjunum þar sem hún tekur þátt í heimsmeistaramótinu í bogfimi.

Anna María hefur aðeins æft bogfimi í um tvö ár en áður segist hún hafa prófað ýmislegt, m.a. æft sund um tíma. En hún segist finna sig vel í bogfiminni hjá Íþróttafélaginu Akri á Akureyri.

„Þetta byrjaði allt á því að bróðir minn fór að æfa bogfimi og síðan fór pabbi minn að æfa líka. Svo hætti bróðir minn að æfa og ég ákvað að fara í þetta í hans stað. Það eru fastir æfingatímar þrisvar í viku en ég tek einnig aukaæfingar. Einnig fer ég í ræktina til þess að styrkja mig því það skiptir miklu máli að hafa styrkinn í þetta og einnig er mikilvægt að hafa gott þol,“ segir Anna María.

Í bogfimi er keppt í þremur bogaflokkum. Bogfimisambandið valdi Önnu Maríu fyrir Íslands hönd til þess að keppa í svokölluðum trissuboga á heimsmeistaramótinu. Hinir tveir bogfimiflokkarnir eru sveigbogi og berbogi.

Eðlilega hefur verið frekar lítið um bogfimimót síðustu mánuðina vegna Covid heimsfaraldursins en þó átti Anna María, sem einungis er átján ára gömul, þess kost að taka þátt í heimsmeistaramóti ungmenna U21 í Póllandi í síðasta mánuði og í júlí sl. vann hún til bronsverðlauna á Norðurlandameistaramóti ungmenna. Nýverið sló Anna Íslandsmetin í bæði U21 undankeppni og útsláttarkeppni trissuboga kvenna.

Heimsmeistaramótið í bogfimi verður í Yankton í næstu viku. „Ég er mjög spennt. Ég ætla fyrst og fremst að hafa gaman að þessu og ég stefni að því að ná mínum besta persónulega árangri. Miðað við æfingarnar núna fyrir mótið finnst mér ég eiga eitthvað inni,“ segir Anna María en faðir hennar, Alfreð Birgisson , sem jafnframt er þjálfari dóttur sinnar, fer líka á heimsmeistaramótið og keppir þar sömuleiðis. Izaar Arnar Þorsteinsson, aðalþjálfari Akurs, hefur einnig þjálfað Önnu Maríu.

Auk þess að keppa í einstaklingskeppni munu feðginin stilla saman sína strengi og keppa í parakeppni (mixed team) á heimsmeistaramótinu. Hér eru myndir af heimasíðu Bogfimisambands Íslands af Önnu Maríu Alfreðsdóttur og Alfreð Birgissyni.

Sem fyrr segir stundar Anna María nám á fjölgreinabraut VMA og hún hyggst ljúka stúdentsprófi núna um jólin eftir tveggja og hálfs árs nám í skólanum. „Það er smá púsluspil að koma þessu heim og saman en það hefur tekist ágætlega. Ég hef ekki ákveðið hvað ég læri í framhaldinu og þess vegna fór ég á fjölgreinabraut, til þess að fá breiðari grunn,“ segir Anna María og svarar því játandi að hún geti vel hugsað sér að gefa bogfiminni meiri tíma eftir að hún lýkur stúdentsprófinu.